07.01.1952
Efri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

156. mál, skattfrádráttur vegna skuldaskila bátaútvegsins

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til að láta í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. ráðh. lætur undir það hilla, að hann og hæstv. ríkisstj. séu til viðtals um lausn þessara mála, að mér skildist fram yfir það, sem fram kemur í frv., eða ég skildi svo orð hans, að n. skyldi tala við sig eða hæstv. ríkisstj. eins og henni vitaskuld ber. Og eins lét hv. þm. Barð. uppi þá skoðun, að hann teldi rétt, að við þessa aðila væri talað, þá n., sem við báðir höfum í huga, og finnst mér þá að skoðun þessara aðila falli vel saman, og vona, að hv. n. hafi þá málsmeðferð, þegar þar að kemur, og við hvora tveggja verði talað. Hér verður ekkert gert, án þess að hæstv. ríkisstj. leggi sitt lið, og ég er fyrir mitt leyti, að svo miklu leyti sem enn er fram komið, ánægður með, að málið hefur verið tekið til athugunar á velviljaðan hátt af þessum aðilum, sem hér um ræðir.