07.01.1952
Efri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

156. mál, skattfrádráttur vegna skuldaskila bátaútvegsins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta frv. bæri ekki að skoða sem viðurkenningu á því, að ríkisstj. bæri ábyrgð á töpum vegna skuldaskilanna, og alþm. hefðu gert sér það ljóst, þegar þeir samþ. lögin. — Ég vil benda á, að hér er ekki um að ræða lögin um skuldaskilasjóð, því að þau voru lítið annað en framlenging á gildandi lögum, og þó þau hefðu ekki verið samþ., hefðu þessir bátar komið undir gömlu lögin. Það er annað ákvæði, sem hefur valdið þessu tjóni. Það er ákvæðið um, að ekki megi ganga að til að innheimta vissar skuldir. Það var ekki gert til að tryggja að koma á skuldaskilum, heldur byggðist það á því trausti hjá útgerðarmönnum, að þetta væru aðeins stundarerfiðleikar, sem mundu batna með meiri veiði, en það hefur nú brugðizt ár eftir ár, og ég efa, að meiri hluti Alþ. hefði leyft þetta, ef það hefði verið ljóst þá, að þetta mundi leiða til þess ástands að taka eignarréttinn af mönnum. Þetta var gert í því trausti að hjálpa útgerðinni yfir aflaleysisárin. Ef ríkisstj. hefur talið sér skylt að verja tugum milljóna króna til útvegsins, til þess að hann héldi þessum tilraunum áfram, þá er ekki fjarstæða, að ríkissjóður taki á sig það tjón, sem menn hafa orðið fyrir, vegna þess að Alþ. hefur neitað þeim að ganga að, þegar þeir gátu tryggt kröfur sínar með aðför að lögum. Þó að hæstv. ráðh. neiti því, þá getur ekki legið annað á bak við þetta frv. en a.m.k. siðferðisleg viðurkenning á því, að ríkissjóði beri að bæta þetta tjón.

Ég get ekki fallizt á það, sem hæstv. ráðh. sagði, að ekki sé hægt að finna, hvað á að draga mikið frá sköttum á ákveðnu ári.

Þá minntist ráðh. ekkert á það, hvort hægt væri að fá dómsúrskurð í málinu. (Fjmrh.: Það er útilokað.) Ég óska samt sem áður, að form. n. ræði það við form. ríkisskattan., því að ég tel það ekki fullkominn hæstaréttardóm, þó að hæstv. ráðh. skjóti því hér fram. Það er kunnugt, að ýmsir aðilar hafa farið í mál við ríkissjóð út af skattamálum, þar sem ráðh. hefur talið útilokað, að þeir mundu vinna málið, en það hefur samt unnizt, og ég er viss um, að margir þessara aðila munu reyna þá leið, hvernig sem sá dómur kann að falla.

Ég ætla ekki að tefja umr. lengur nú. Ég á sæti í þeirri n., sem málið fer til, og álít rétt, að form. hennar kalli þessa aðila á fund, — ég sé, að það hefur verið boðaður fundur á morgun. Ég tel nauðsynlegt að ræða við þessa aðila, áður en málið kemur til 2. umr.