11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið til meðferðar í fjhn., og eins og nál. ber með sér, leggur meiri hl. n. til, að það verði samþ. óbreytt, en einn nm., hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ), hefur áskilið sér rétt til að fylgja brtt., sem kynnu að verða fluttar.

Eins og hv. þd. er kunnugt, er þetta frv., um ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1951, byggt á samkomulagi milli stjórnarflokkanna. Ég vil þó í þessu sambandi láta það koma fram, að enda þótt ég ásamt öðrum nm., sem mynda meiri hl. fjhn., leggi til, að frv. verði samþ. óbreytt, þá er ekki því að leyna, að sérstaklega í samhandi við 2. lið frv., um byggingarsjóð verkamanna, hefði verið nærri mér að flytja Brtt. varðandi það, hvernig byggingarsjóðsstjórnin skyldi verja þessum 4 millj. kr. til þess að veita lán til byggingarframkvæmda í Reykjavík annars vegar og í öðrum kaupstöðum hins vegar. En ég hef þó ekki flutt þá brtt. og læt þá við það sitja að lýsa yfir í þessu sambandi, að ég mun á öðrum vettvangi reyna að beita þeim áhrifum, sem kunna að vera fyrir hendi, til þess að hlutfallslega meira af lánveitingum byggingarsjóðs fari til byggingarframkvæmda í Reykjavík en verið hefur á undanförnum árum. Segi ég þetta vegna þess, að mér skilst, að þróunin hafi verið sú, að í æ ríkari mæli hefur skapazt verulegt ósamræmi milli þess fjár, sem byggingarsjóður verkamanna hefur veitt til bygginga í Reykjavík annars vegar og í öðrum kaupstöðum hins vegar. Eins og kunnugt er, leggja annars vegar bæjarsjóðir fram fé í byggingarsjóð og hins vegar ríkissjóður, og á hvor aðili að leggja fram jafnstórt framlag. Ef litið er yfir gang þessara mála til 1945, kemur í ljós, að framlag Reykjavíkurkaupstaðar til byggingarsjóðs hefur verið liðlega 4.8 millj. kr., en á sama tíma hefur byggingarsjóður veitt til byggingarframkvæmda í Rvík liðlega 6.1 millj. kr.; m.ö.o. hefur gengið til byggingarframkvæmda í Reykjavík úr þessum sjóði umfram það, sem bæjarsjóður Rvíkur hefur lagt fram á þessu árabili, 1.3 millj. kr. Hins vegar hefur á sama tíma framlag annarra kaupstaða til byggingarsjóðs verið tæplega 3 millj. kr., en byggingarsjóður hefur veitt til þessara kaupstaða á sama tímabili tæpar 18 millj. kr., eða 17.9 millj., sem þýðir, að á sama tíma sem til þessara byggingarframkvæmda í Reykjavik hefur farið umfram það, sem bæjarsjóður Rvíkur hefur lagt fram, 1.3 millj. kr., hafa í öðrum kaupstöðum farið umfram það, sem sjálfir kaupstaðirnir hafa lagt fram, 15 millj. kr. Af þessu sést glögglega, að hér er um óverjandi ósamræmi að ræða, sem kann ekki góðri lukku að stýra, — að tekið sé, að segja má, fé úr bæjarsjóði Reykjavíkur til þess að lána til byggingarframkvæmda í öðrum kaupstöðum og kauptúnum.

Í árslok 1950 eru skuldir byggingarfélags verkamanna í Reykjavík 11 millj. kr., en skuldir byggingarfélaga annars staðar á landinu eru 21 millj. kr. Þá liggur fyrir, að á sama tíma hafa verið byggðir í Rvík verkamannabústaðir, sem voru samtals 373 íbúðir, en annars staðar á landinu voru þeir 391 íbúð.

Ég skal nú ekki fjölyrða um þetta meir, en vildi að þetta komi fram, svo að þm. yrði ljóst það misræmi, sem hér hefur skapazt. Ég hef sem sagt á það fallizt undir meðferð málsins í n., að það verði samþ. óbreytt, en mun á öðrum vettvangi reyna að freista þess, að nokkur leiðrétting fáist á því misræmi, sem fram að þessu hefur átt sér stað í þessum efnum.