19.01.1952
Efri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Út af brtt. hv. minni hl. vil ég taka fram, að stj. sýnist ekki mögulegt að ráðstafa hærri fjárhæð af tekjuafgangi ársins 1951 en frv. gerir ráð fyrir. Gerð var áætlun snemma í des., og var þá gert ráð fyrir, að greiðsluafgangurinn mundi losa 50 milljónir. Það er ekki hægt að sjá enn, hver niðurstaðan verður, en þó hefur komið á daginn, að tekjurnar í des. voru rýrari en þá varð séð fyrir, svo að útkoman verður ekki betri en þá var spáð. Við sjáum, að það er ekki mögulegt að verða við þeim óskum að ráðstafa meiru. Það má ekki úthluta meiru en verður endanlega í mótvirðissjóðnum, þ.e.a.s. virkjanirnar og áburðarverksmiðjan þurfa það mikið á þessu ári, og það er því fyrirsjáanlegt, að ekki er kostur að úthluta meiru úr sjóðnum. Þess vegna verð ég að taka undir með hv. meiri hl. fjhn. og skora á hv. d. að fella brtt.