19.01.1952
Efri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Í hv. Nd. var flutt brtt. á þskj. 583 við frv., og vil ég leyfa mér að freista þess að fá hana samþ. í þessari hv. d. — Ég skal taka undir það, sem frsm. sagði, að ekki er vert að ráðstafa meiru en til er af tekjuafganginum, og mun ég fara eftir því. Hæstv. fjmrh. upplýsti nú, að líkur væru til, að áætlun hans um tekjuafgang byggðist á fullmikilli bjartsýni og tekjurnar í desember yrðu lægri en þá var gert ráð fyrir. En allt um það virðist hann telja, að um 50 millj. verði afgangs, enda virðist nægilega ríflega greitt umfram fjárl., ef ekki verður meiri afgangur.

Þær brtt., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. 6. landsk., eru þær, að heildarupphæðin verði hækkuð um 6 millj., úr 38 í 44, og er ekki vafi á því, að tekjuafgangurinn verður það ríflegur, að eitthvað verður eftir samt. Þessar 6 millj. leggjum við til að gangi til að auka framlag á 2. tölulið, lán til byggingarsjóðs verkamanna, úr 4 millj. í 10 millj., og enn fremur að vextir verði ákveðnir 4% í stað 51/2% í frv. stj. Hér er svo hóflega í sakirnar farið og svo mikil nauðsyn að auka framlög til byggingarsjóðs verkamanna, að ég trúi ekki fyrr en ég tek á því, að hv. d. geti ekki fallizt á það. — Ég sé, að hæstv. ráðh. er farinn, en ég beindi þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. í Sþ. fyrir skömmu, hvað stj. hygðist gera til að bæta úr atvinnuleysinu í Reykjavík. Ráðh. svaraði, að stj. væri að athuga þetta og mundi þá næsta dag — eða í gær — ræða við stjórn fulltrúaráðsins, og nú langar mig til að vita, hvort hæstv. ríkisstj. getur svarað, hvað hún hyggst gera til að bæta úr eftir þær viðræður. Mun ég þá, að fengnum þeim upplýsingum, þó að ekki verði í sambandi við þetta mál, flytja till. til að reyna að bæta úr því. — Ég vil svo afhenda forseta þessa till. og óska þess, að hann leiti afbrigða fyrir henni.