15.01.1952
Efri deild: 59. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

35. mál, forgangsréttur til embætta

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. lá fyrir menntmn., gekk n. að því til samkomulags að láta fella niður „Íslandssögukennslu“, til þess að málið yrði afgreitt sammála úr n. Ég fyrir mitt leyti leit svo á, að þetta væri ekki neitt verulegt atriði og þetta kæmi í sama stað niður. En síðan þetta hefur skeð, hef ég orðið var við það, að ýmsir kennarar og prófessorar hafa lagt töluvert mikið upp úr því, að ekki sé sleppt þarna úr Íslandssögu. Ég verð að segja það, að úr því að hæstv. menntmrh. hefur einnig komið fram með þetta og það er sýnt, að menntamenn telja nauðsynlegt að hafa Íslandssögu þarna, þá er svo mikil þjóðerniskennd í mér, að ég vil ekki spilla fyrir því, að hinir beztu menntamenn fái að kenna þessa námsgrein, sem við viljum lyfta til vegs. Ég mun því greiða atkv. með till. menntmrh. Ég held, að það þurfi ekki að rökræða mikið þetta mál, til þess að hv. þm. skilji, hvað hér er um að ræða, að ekki muni af veita, að við og æskan lærum sem bezt okkar sögu, mál og bókmenntir.