17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

35. mál, forgangsréttur til embætta

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Frv. þetta er í raun og veru um breyt. á l. nr. 84 23. júní 1936, þó að á þskj. 615 sé talið, að það sé breyt. á l. nr. 36 frá 1911. En menntmn. Ed., sem fjallaði um málið í þeirri hv. þd., fannst eðlilegra að fella niður l. frá 1936 og fella þessi ákvæði inn í h frá 1911, og sé ég ekki, að neitt sé við það að athuga, að svo sé gert.

Breytingin frá l. nr. 36 má segja að sé ekki mikil. Aðalatriðið er það, að kandidatar frá Háskóla Íslands hafa forgangsrétt til kennslu í framhaldsskólunum, og svo hefur verið bætt við nýju ákvæði, sem kemur til af því, að B.A.- deild hefur verið sett við skólann. Að öðru leyti má um þessa breytingu segja, að samkomulag hefur orðið milli háskólans og sambands kennara, og mælir menntmn. Ed. með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur hér fyrir frá þeirri deild. Vil ég að lokum taka það fram, að ég legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.