17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

166. mál, samkomulag reglulegs Alþingis 1952

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið þetta mál fara hér í gegnum hv. d. öðruvísi en ég láti það í ljós, að ég kann illa við þetta frv., þótt ég búist við að greiða því atkv., ef ekki næst samkomulag um breyt. á því. Ég kann illa við það sökum þess, að reynslan hefur sýnt það, ef ég man rétt, ég held s.l. 10 ár, að það hefur alltaf þurft að fresta hverju þinghaldi til hausts, og alltaf hafa verið sett l., sem gilda fyrir aðeins næsta ár, um það, að þinghaldi skuli frestað. Mér finnst, að það muni vera komin nægileg reynsla fyrir því, ef reikningsári ríkisins verður ekki breytt, að þá muni alltaf þurfa að hafa haustþing, og sá tími, sem ákveðinn er með stjskr., þótt breyta megi því með h, 15. febr., eigi ekki við lengur. Hví ekki, þegar menn sjá þetta, að setja l. um það, að Alþ. skuli koma saman fyrsta virkan dag í október í staðinn fyrir 15. febr.? Stjskr. heimilar að breyta þessu ákvæði með einföldum l., ekki fyrir eitt ár, heldur til frambúðar, og ég vil beina því til n. að athuga þetta milli umr., og eins vil ég beina því til hæstv. forsrh., sem hér er staddur, að ef það þykir ekki tími til þess nú að athuga þetta, þá mun ég sætta mig við það að greiða þessu frv. atkv., því að það er ekki um annað að gera, en þá vildi ég óska þess, að hæstv. ríkisstj. tæki þetta til athugunar fyrir næsta þing, a.m.k. annaðhvort að breyta þingtímanum til frambúðar, þannig að hann yrði færður til haustsins, eða breyta reikningsári ríkisins. Ég get látið það álit í ljós, að ef það þætti ekki nauðsynlegt — eins og hefur verið undanfarin ár — vegna fjárlagaafgreiðslu að hafa þing á haustin til þess að sjá betur afkomu ríkissjóðs fyrir næsta ár, þá teldi ég heppilegra að hafa þingtímann eins og hann er ákveðinn í stjskr., síðari hluta vetrar, heldur en að hafa hann í skammdeginu.

Ræða hv. frsm. minni hl. n. fannst mér lítið koma þessu máli við. Þótt allt væri játað, sem hann sagði um þörf á því, að Alþ. skærist í leikinn út af atvinnuástandinn hjá almenningi og fjármálaástæðum þeim, sem nú eru að skapast, þá er það alveg öfugt við það, sem hann sagði. Ef farið væri að setja nýtt þing 15. febr., þá fylgir nýrri þingsetningu ýmislegt, eins og það, að leggja þarf fram nýtt fjárlagafrv. Það er beinlínis skylda, og ýmsar aðrar tafir mundu koma í ljós. Ég sé ekki, hvað er því til fyrirstöðu, að þetta þing sitji enn nokkurn tíma, þar til það hefur ráðið þessum málum til lykta. Þing, sem byrjað hafa að haustinu, hafa stundum staðið fram á vorið. Ef ég hefði verið í hans sporum og hans flokks, þá hefði ég miklu frekar beint því til þingheims og hæstv. ríkisstj. að slíta ekki þessu þingi fyrr en málin hefðu verið rædd og til lykta leidd. Hv. þm. hlýtur að sjá, að það er miklu eðlilegra að reyna að ljúka málunum á þessu þingi en setja nýtt Alþ. 15. febr. og verða svo að fresta því til næsta hausts, en það mundi reynast óhjákvæmilegt.

Ég vildi gjarnan fá svör við því frá hæstv. forsrh. nú við þessa umr., hvernig hann tæki í það að beina þessu frv. í þá átt, að það verði ekki tímabundið bara við þetta næsta ár, og eins vildi ég beina því til þeirrar nefndar, sem um málið fjallar. En ef engar undirtektir verða við það, mun ég þó sem forseti taka málið aftur til 3. umr., en þó hugsa til þess á næsta þingi að gera breytingu í þessu efni í þá átt, sem ég tel viðkunnanlegra.