18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

166. mál, samkomulag reglulegs Alþingis 1952

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég var í síma, þegar frv. var tekið fyrir, en hafði annars hugsað mér að mæla fyrir því nokkur orð. Frv. er búið að fara í gegnum Ed., og var fallizt á það óbreytt þar. — Stj. lítur svo á, að þegar þessu þingi verður slitið innan fárra daga, sé ekki ástæða til að kalla það saman aftur 15. febr. n.k., eins og gert er ráð fyrir í stjskr. Þær röksemdir, sem færðar eru fram af fulltrúum sósíalista, bæði í hv. Ed. og í því, sem ég heyrði af ræðu hv. 2. þm. Reykv., hniga í þá átt, að atvinnumálin og vandræði í sambandi við þau og auk þess deila útgerðarmanna og sjómanna á togurum valdi því, að ekkert vit sé í, að þingi verði nú slitið. Þessi rök tel ég ekki mikils virði. Þing hefur nú staðið á fjórða mánuð, og eftir því sem fulltrúi sósíalista talaði í Ed. í gær, á stefna ríkisstj. í fjármálum að vera meginröksemdin fyrir því, að þingi megi ekki slíta nú. Ég lít svo á, að frá 1. okt. hafi verið nægur tími fyrir stjórnarandstöðuna til að koma sínum till. á framfæri við ríkisstj. og Alþ. og fyrir bæði ríkisstj. og Alþ. til að átta sig á þeim till. Ég tel því ástæðulaust, að þing sitji lengur til að bíða eftir till. frá þeim aðilum. Hitt vita svo allir, að það er hægt hvenær sem er eftir 15. febr. að kalla þing saman aftur. Og ég vil taka það fram sem mína persónulegu skoðun, að mér virðast margar þær blikur á lofti, m.a. sú, sem hv. 2. þm. Reykv. minntist á, uppsögn togarasamninganna, sem geta valdið því, að það þurfi að kveðja þing saman fyrr en gert er ráð fyrir í þessu frv. að gert verði í síðasta lagi. Getur ríkisstj. þá lagt til við forseta, að kvatt verði saman aukaþing. Get ég endurtekið það, að mér virðist ýmislegt benda til, að þörf verði á að kalla saman þing, áður en þessir 7 mánuðir eru liðnir, sem gert er ráð fyrir í frv. — Hitt er svo annað mál, sem ég get vel skilið, að stjórnarandstaðan treystir ekki ríkisstj. til að kalla þingið saman á þeim tíma, er nauðsyn ber til, en aðalatriðið er, hvort stuðningsmenn stj. treysta henni til þess. Slíkur meiningamunur stj. og stjórnarandstöðu er eðlilegur. — Hinu trúi ég ekki, að það komi fram margar nýjar till. frá sósíalistum um nýja stefnu í fjármálum þjóðarinnar, er leiði til þess, að horfið verði að nýjum úrræðum, eins og flutt var sem aðalröksemd í Ed. í gær af hálfu þess þm., sem talaði fyrir hönd sósialista. Og þó að nú beri mikið á atvinnuleysi, eins og viðurkennt er, kemur það af ýmsum orsökum, sums staðar vegna aflabrests og nú vegna tíðarfarsins. Ég sá, að málgagn sósíalista gerði í dag lítið úr þeirri hagspeki minni, að atvinnuleysið stafaði af tíðarfarinu. En ég hygg að það séu ekki margir, sem ekki viðurkenna, að atvinnuvegir okkar séu háðir máttarvöldunum. (HV: Iðnaðurinn líka?) Atvinnuleysið stafar af fleiru en iðnaðinum, þegar svo er farið, eins og að undanförnu, að ekki er hægt að vinna verk utan dyra og útgerðin liggur niðri að miklu leyti, jafnvel togararnir geta ekki veitt vegna veðurofsans og lagt afla sinn upp. — Það hefur verið skýrt svo frá, að það séu gerðir út 28 bátar frá Reykjavík á þessari vertíð, og hygg ég, að það sé meira en verið hefur undanfarin ár. Ef þessir bátar kæmust á veiðar, færu þeir langt í að birgja upp vinnustöðvarnar í landi. En þegar vinna stöðvast í landi og ekki er hægt að koma bátunum út, þarf engan að undra þótt atvinnuleysi sé.

Það voru einkum þessi atriði, sem ég vildi í sambandi við það, sem fulltrúi Sósfl. hefur haldið fram um þetta mál, taka fram nú, og sé ég ekki ástæðu til að segja fleira um þetta atriði. — Ég vil svo leggja til, að þessu frv. sé vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.