21.01.1952
Neðri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

166. mál, samkomulag reglulegs Alþingis 1952

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég hef í nál. 699 rætt sérstaklega um þetta mál. Meiri hl. allshn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. leggur til, að það verði fellt. Ástæðan fyrir því er sú, að ástandið í atvinnumálum þjóðarinnar er svo alvarlegt, að það er nú eins og fyrir 12–14 árum eða á atvinnuleysisárunum fyrir stríð.

Nú er talið, að um 1500 manns séu atvinnulausir hér í Reykjavík. Og ég er þeirrar skoðunar, að ef Alþingi verður slitið nú næstu daga, eins og ráðgert hefur verið, þá sé ástæða til að ætla, að það þurfi að kalla þingið saman til fundar í næsta mánuði á samkomudegi þess, því að það er óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir vegna þess, sem fyrirsjáanlega hlýtur að koma fyrir.

Sósfl. hefur borið fram till. um að gera ráðstafanir varðandi atvinnuleysið, og hafa þær ekki fengið góðar undirtektir. Því er haldið fram, að þær skýrslur, sem fyrir liggja, gefi ekki rétta mynd af ástandinu eins og það er, og séu þess vegna mjög villandi. Hæstv. forsrh. hefur sérstaklega tekið fram, að hann teldi það vafasama fyrirgreiðslu að gera meira úr því atvinnuleysi, sem nú er, heldur en það er í raun og veru. — Ég tel sérstaka nauðsyn, að þetta mál verði afgreitt áður en þing fer heim. Þess vegna vil ég mjög eindregið skora á hv. deild að hlaupa ekki frá vandamálunum eins og þau nú eru, heldur gera ráðstafanir til að fyrirbyggja atvinnuleysi, áður en þetta þing lýkur störfum, eða að öðrum kosti að fylgja því ráði að láta þingið koma saman aftur 15. febr., á reglulegum samkomudegi Alþingis.