18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

168. mál, ríkisreikningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það hefur farið svo eins og áður, þegar ríkisreikningurinn hefur legið fyrir Alþ. og verið vísað til fjhn., að hún hefur lagt til, að hann verði samþ., án þess að hún gerði nokkrar ráðstafanir í sambandi við athugasemdir, sem við yfirskoðunarmenn höfum gert við hann. Þetta kemur mér að vissu leyti á óvart eins og mörgum öðrum. Mér þykir ástæða að minna á nokkur atriði í þessu sambandi, vegna þess að við, sem lengi höfum verið yfirskoðunarmenn, gerum árlega athugasemdir við reikninginn, oft út af sömu misfellunum, og fáum það svo frá Alþ., að það er ekki tekið til greina, og fer alltaf versnandi það ástand, sem við finnum að, og finnst okkur þreytandi í þessu starfi að sjá engan árangur.

Það er eitt atriði sérstaklega, sem ég hef ástæðu til að tala nú um, þegar hv. frsm. fjhn. vék að því, hve reikningurinn væri seint á ferðinni. Það hefur hvað eftir annað komið athugasemd út af þessu og jafnvel verið vikið að því, að það væri okkur yfirskoðunarmönnunum að kenna. Nú upplýstist þetta á s.l. sumri með bréfaskriftum milli hæstv. fjmrh. og mín. Ég fékk bréf frá honum, dags. 30. júlí, þar sem hæstv. ráðh. skorar á mig að flýta yfirskoðun þessara reikninga og reikninganna fyrir árið 1950. Ég svaraði þessu bréfi strax fyrir mína hönd. Bréfi mínu svaraði hæstv. ráðh. með bréfi dags. 7. sept. Nú kemur í ljós, eins og tekið er fram í athugasemdum yfirskoðunarmanna við reikninginn nú og oft áður, að mikill fjöldi starfsgreina og stofnana ríkisins er óendurskoðaður tölulega. Raunverulega ættum við ekki að skila athugasemdum fyrr en við fáum skýrsluna í hendur. Þó höfum við gert þetta, og samkomulag varð um að gera þetta einu sinni enn þrátt fyrir þessa óreiðu. Þarna er um stórkostlegt mál að ræða. Þó að við skilum athugasemdum við reikninginn, er ekki þar með sagt, að við mundum ekki skila fleiri, ef við hefðum skýrslu um endurskoðun stofnananna í höndum.

Okkar verkefni er aðallega þrenns konar: að bera saman spjaldskrána við reikninginn; að athuga endurskoðun reikninganna; að rannsaka, að hve miklu leyti ríkisstj. fer eftir fjárlögum og öðrum samþykktum.

Þegar þannig stendur á, að tölulega endurskoðunin er mörgum árum á eftir tímanum, eins og hún hefur verið undanfarið, er hæpið frá mínu sjónarmiði, að Alþ. afgreiði slíka reikninga. Þetta þekkist ekki hjá neinu félagi á Íslandi, en ríkið samþ. reikninga tölulega óendurskoðaða. Nú má segja, að ýmissa hluta vegna sé eðlilegt, að þetta fari úr böndunum hjá fjmrh. Ríkiskerfið er svo flókið, eins og hæstv. fjmrh. bendir á, og þetta er svo mikið starf, að það þarf fjölda manns til að fylgjast alveg með, ekki sízt þegar þetta er orðið langt á eftir tímanum.

Ég held, að það séu ekki nóg ráð, sem hæstv. ráðh. bendir á í þessu sambandi. Fjhn. þessarar d. bendir ekki á nein ráð og sér ekkert athugavert við þetta. Viðvíkjandi þessu frv. bendir ráðh. á tvö ráð. Annað er að fjölga endurskoðendum við fjmrn. og hitt að afhenda reikningana til löggiltra endurskoðenda. Það hefur verið gert, en ekki nægilega mikið. Ég held, að einna bezta ráðið væri að taka sumar stærstu og umfangsmestu stofnanir ríkisins og kjósa sérstaka endurskoðendur til að starfa þar. Ég held, að það komist varla í lag öðruvísi. Verkefni endurskoðunardeildarinnar væri svo að úrskurða athugasemdir. Í þessu sambandi má benda á póst og síma, áfengisverzlunina, tóbakseinkasöluna, Tryggingastofnun ríkisins og vita- og hafnarmál. Allar þessar stofnanir velta tugum milljóna. Það er kunnugt, að ríkið hefur 150–160 stofnanir á sinni könnu. Hér þarf að endurskoða vel, þegar komið er upp um atburði eins og nú, þegar óráðvendni hefur komið upp í stórum stíl. Þá er því beint til Alþ., að hér verói breytt til. Ég hefði viljað, að hæstv. ríkisstj. og aðrir, sem um þetta fjalla, athuguðu, á hvern hátt þessu væri komið í lag. Það er út í bláinn, sem hefur heyrzt hér á Alþ., að ásaka okkur yfirskoðunarmenn, þó að þessir reikningar séu á eftir tímanum. Ég held, að við höfum skilað athugasemdum um þetta eins fljótt og okkur var unnt.

Það eru svo tvö atriði, sem við höfum nú vísað til aðgerða Alþ. og höfum gert áður. Innheimta hjá ríkinu fer alltaf versnandi. Samkvæmt þessum reikningum á það útistandandi 20 millj. kr., og ég býst ekki við, að það hafi farið batnandi síðan. Það er út af fyrir sig erfitt við þetta að eiga. Svo eru tvær stofnanir, sem við höfum alltaf gert athugasemd við. Öll þessi ár síðan útvarpið var stofnað höfum við gert athugasemd við, hvað sú stofnun er frek á umframgreiðslur og virðist ekki taka tillit til fjárlaga. Á þessu ári er hér um að ræða umframgreiðslur, sem nema 900 þús. kr. Það er önnur stofnun, sem einnig er frek á umframgreiðslur, og það er fjárhagsráð. Ég man ekki, hvað upphæðin er mikil, en það er stór upphæð. Nú hefur það komið fram í svari hæstv. fjmrh., að þessar stofnanir þurfi ekki að taka tillit til fjárlaga, því að þær hafi tekjur til að greiða þau gjöld, sem þær stofna til utan fjárlaga. Þetta er atriði, sem við yfirskoðunarmenn teljum alvarlegt. Þó að þessar stofnanir hafi tekjur til að greiða þau gjöld, sem þær stofna til utan fjárlaga, teljum við fjarri lagi, að þær hafi heimild til þess nema með leyfi ráðh. Þær hafa ekki leyfi til að stofna til útgjalda, þó að þær hafi tekjur til þess, nema heimild sé veitt til þeirra á fjárl6gum. Ráðherra hefur ekki heldur leyfi til að stofna til útgjalda, sem eru ekki leyfð á fjárlögum. Það má segja, að þær stofnanir, sem hér um ræðir, lítilsvirði fjárlögin, og þeir forstjórar, sem fara með þessi mál, fara sínu fram án þess að taka tillit til fjárlaga. Þetta þýðir, að starf Alþ. og fjvn. að fjárlögum sé þýðingarlitið.

Þessum reikningum fylgja fjáraukalög, sem hljóða upp á 133 millj. kr., og sýnir það, hvað hér er á ferð. Ég álít, að afgreiðsla fjáraukalaga sé aukaatriði, sem ekki eigi að þræta um. Ríkisreikningarnir eru hér aðalatriðið.

Ég ætla ekki að fara um þetta miklu fleiri orðum, en hv. þm. sjá, að hér er hætta á ferð. Hér er ekki persónuleg hætta fyrir neinn, en þetta varðar margar ríkisstj. og þó fyrst og fremst sambandið milli ríkisstj. og Alþ. og hvort ekki sé hægt að koma betra lagi á þetta og hvað eigi að gera.

Þá vil ég aðeins minnast á eitt atriði í ræðu hv. frsm. út af ábyrgð ríkisins. Það er ekki rétt, að það sé ekki víkið að því. Það er ekki þægilegt fyrir fjmrh. né ríkisstj. að standa á móti því að greiða skuldir, sem ríkið er ábyrgt fyrir, að sumu leyti fyrir ríkisstofnanir eins og síldarbræðsluna og hafnargerðir. Vegna þess að síldveiði og önnur veiði hefur brugðizt, geta fyrirtækin ekki staðið í skilum. Þetta mál er til athugunar, en það er erfitt við það að eiga. Þetta ætti að hafa það í för með sér, að ríkið gengi varlegar í ábyrgð fyrir vafasöm fyrirtæki. Þá ætti aðstaðan að vera þægilegri að geta staðið í skilum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég gat ekki látið hjá líða að vekja athygli hv. þm. á því, sem ég hef vikið að.