21.11.1952
Neðri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

42. mál, verðlag

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessar umr. á því stigi, sem þær hafa nú komizt inn á, en ég skrifaði að vísu ekki mjög nákvæmlega það, sem hv. þm. sagði í sambandi við umrædda tvo kaupsýslumenn. En það var á þá leið, að þeir hefðu gefið málamyndaskýringar, sem þeir voru hreyknir af og strax hefðu verið teknar gildar. Ef slíkar málamyndaskýringar, upplognar, eru teknar gildar, þá er það ekki viðskmrn., sem hv. þm. á að ásaka í því tilefni, því að það tekur enga ákvörðun um það, hvort þessar skýringar eru teknar gildar eða ekki. Það er eingöngu verðgæzlan, sem ákveður, hvort skýringarnar eru gildar. Og ef verðgæzlan tekur skýringarnar gildar, þá segi ég, að ekki eigi að dæma mennina, hvort sem skýringin liggur í því, að um verðjöfnun er að ræða, sem verðgæzlan jafnan hefur tekið gilda samkv. þeim reglum, er hún hefur fylgt, eða hvort um misskilning er að ræða, sem leiðréttur hefur verið, og það kemur í ljós, að mennirnir hafa ekki brotið af sér. Ég vildi bara, að þetta kæmi fram, vegna þess að það, sem hv. þm. sagði í sinni síðustu ræðu, var ekki í samræmi við það, sem hann sagði næst á undan.