23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

42. mál, verðlag

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég verð enn að finna að því, að þetta mál skuli vera til umræðu, án þess að nokkur sé viðstaddur til þess að mæla fyrir afstöðu hv. allshn. til málsins. Það er allsendis óviðunandi, að stjórnarfrv. skuli vera til 2. og 3. umr. hér í deildinni, án þess að mælt sé fyrir því af hálfu þeirrar n., sem málið hefur haft til meðferðar. Jafnvel þótt n. sé sammála, þá eru þetta vinnubrögð, sem ekki á að líða mótmælalaust. Ég sætti mig við það við 2. umr., að málið gengi til 3., án þess að nokkuð heyrðist frá hv. n. og án þess að hæstv. viðskmrh. væri við, en ég vil andmæla því, að málið sé afgr. frá deildinni að frsm. n. og hæstv. viðskmrh. fjarstöddum, eða án þess að nokkuð heyrist frá þeim.

Það, sem mig langaði til að spyrja hæstv. viðskmrh. um og tel mjög eðlilegt að um sé spurt í þessu sambandi, er, hvað liði framkvæmd á 2. gr. þessara l., sem nú eru í gildi. En í 2. gr. er svo ákveðið, að verðgæzlustjóra skuli heimilt að birta nöfn þeirra manna, sem verða uppvísir að óhóflegri álagningu á vöru eða þjónustu, sem frjálst verðiag er á, og jafnframt er í gr. sú skylda lögð á ráðh. að setja nánari fyrirmæli um framkvæmd þessarar heimildar. Ég vil fá að vita, hvort hæstv. viðskmrh. hefur sett slíkar reglur eða ekki. Fyrst hann er hér ekki við, vildi ég leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. n., sem nú er hér kominn inn í deildina, hvort nokkuð hafi verið upplýst um það í n., að þessar reglur hafi verið settar, og hvort von muni vera á því, að einhver slík nafnabirting fari fram.

Varðandi till hv. þm. A-Húnv. vildi ég nú segja það, að mér finnst hún ekki vera alls kostar skýr. Till. hefst þannig, að verðgæzlustjóri skuli á þriggja mánaða fresti birta skýrslu um útsöluverð á öllum helztu nauðsynjavörum og öllum helztu tegundum byggingarefnis í heildsölu og smásölu í Reykjavík og Hafnarfirði. Ætlast hv. tillögumaður til þess, að birt sé sérhvert verð, sem sérhver vara er höfð til sölu á? Nú er það vitað, að sumar vörutegundir eru boðnar til sölu á fjölmörgu verði. Í 10 mismunandi búðum eru e.t.v. 10 verðupphæðir á sömu vörunni. Á að birta allt þetta? Á að birta meðalverð? Á að birta hæsta eða lægsta verð? Um þetta er ekkert sagt í till. og slíka till. er náttúrlega ekki hægt að samþykkja, meðan þetta liggur ekki ljóst fyrir. Till. þyrfti þess vegna að orða betur, ef ætti að gera hana að l., og ég þarf náttúrlega ekki á það að minna, að með þessu móti yrði stefnt til gífurlegrar skriffinnsku. Nú er það kunnugt, að hv. þm. A-Húnv. er mikill andstæðingur skriffinnsku, og er það út af fyrir sig mjög lofsvert. En með þessari grein er hann held ég að stofna til meiri skriffinnsku í verðgæzlunni, en áður hefur þekkzt þar, því að það yrðu ekki stuttir listar, sem yrði að birta opinberlega, ef fara ætti nákvæmlega eftir þessari till. eins og hún er þarna. Það yrðu ekki tugir af línum og tugir af tölum, ekki hundruð, heldur þúsundir af línum og þúsundir af tölum, sem birta yrði á þriggja mánaða fresti, ef till. yrði tekin bókstaflega. Þetta er sem sagt ekki till. um minnkaða skriffinnsku í verðgæzlunni, eins og hans ræða fjallaði um, heldur er þetta till. um stóraukna skriffinnsku í verðgæzlunni. Meining hv. þm. er hins vegar góð. Hann vill gera almenningi kleift að fylgjast sem bezt með því, á hvaða verði kaupmenn og kaupfélög selja vörur sínar, en betur þarf hann að ganga frá till., til þess að þessi góði tilgangur komi almenningi að nokkuru gagni.

Ég vil sem sagt ítreka þá fyrirspurn til hv. frsm. n., hvort n. hafi borizt nokkrar upplýsingar um, hvað liði framkvæmd á þeim l., sem nú eru í gildi, og þá sérstaklega 2. gr. laganna.