23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

42. mál, verðlag

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hv. frsm. n. skýrði frá því, að n. væri ókunnugt um, hvort ráðh. hafi gert tilraun til þess að framkvæma þau l., sem búin eru að vera í gildi í marga mánuði. Hann segir það vafalaust satt, að ráðh. hafi enga skýrslu gefið n. um þetta, en hitt hefði mér ekki fundizt óeðlilegt, að n. hefði spurt ráðh. um það, hvað liði framkvæmd laganna. Þetta eru brbl., sem hér er verið að staðfesta, og mér finnst það satt að segja vera dálítið losaraleg afgreiðsla hjá n., ef hún hefur haft málið til meðferðar og aldrei spurt ráðh. að því, hvort hann hafi framkvæmt l. eða ekki. En ég fæ ekki betur séð en að þessi l. hafi ekki verið framkvæmd, þó að þau séu búin að vera í gildi í marga mánuði. Þessi l. voru fyrst og fremst sett til þess að birta nöfn þeirra aðila, sem eru uppvísir að óhóflegri álagningu á vörur eða þjónustu, sem frjálst verðlag er á, og í þeim var svo ákveðið, að ráðh. skyldi setja nánari fyrirmæli um framkvæmd heimildarinnar.

Ég spurði um það við 1. umr. málsins, hvort þessar reglur væru komnar, hvort þær hefðu verið settar og hvort bráðlega mundi vera von á einhverri birtingu nafna. Ráðh. sagði þá, og það vona ég að allir nm. hafi heyrt: Reglur hafa ekki verið settar enn, en verða settar bráðum, og það er alveg á næstunni von á framkvæmd þessara laga. — Síðan eru liðnar ég held einar 8 vikur, og n. í þessari hv. deild hefur haft málið til meðferðar áreiðanlega í 5–6 vikur, og mér þykir það undarleg vinnubrögð hjá n. að hafa aldrei spurt ráðh. um það, hvort þessi l. eigi að vera pappírsgagn einvörðungu eða hvort þau eigi að framkvæmast. Sé það alveg augljóst mál, að þessi l. eigi að verða pappírsgagn eitt og ekki koma til framkvæmda, þá er ástæðulaust fyrir þingið að vera að samþ. þau. Og mér þykir það mjög miður, að hæstv. ráðh. skuli ekki vera hér viðstaddur, hvorki við 2. né 3. umr. málsins, til þess að svara fyrirspurnum frá þm. varðandi þetta, því að afstaða þeirra til málsins hlýtur að fara eftir því, hvort það er vilji stjórnarinnar að framkvæma l. eða hvort það er vilji stjórnarinnar að framkvæma þau ekki og hafa þessi ákvæði einungis standandi sem pappírsákvæði til þess að geta vitnað í, að það sé nú heimilt að birta nöfn okrara, ef stjórninni býður svo við að horfa, — jafnvel þótt hún væri ráðin í því að birta þau aldrei. Það er þetta, sem við þyrftum að geta spurt hæstv. ráðh. um.

Ég vil því enn ítreka þau tilmæli mín til hæstv. forseta, að hann fresti þessari umr. þar til hæstv. ráðh. sér sér fært að vera hér við í deildinni til þess að ræða við þm. um málið. Mér finnst óeðlilegt að ljúka bæði 2. og 3. umr. að honum fjarstöddum.