23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

42. mál, verðlag

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Tilgangur hv. þm. A-Húnv., er dálítið annar, en fram kemur í greininni eins og hún er orðuð, því að samkvæmt henni á að birta á þriggja mánaða fresti skýrslu um útsöluverð á öllum helztu nauðsynjavörum og aðaltegundum byggingarefnis í heildsölu og smásölu í Reykjavík og Hafnarfirði, M.ö.o. allt útsöluverð, sem þessar vörur eru seldar á, en það getur, eins og ég sagði áðan, auðvitað verið mjög margs konar verð. En nú kemur í ljós, að hann virðist ekki eiga við það, heldur eiga við hæsta og lægsta verð, og er það út af fyrir sig miklu skynsamlegra.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að í n., sem málið hafði til meðferðar í Ed., hafi flokksbróðir minn, hv. 6. landsk. þm., engar athugasemdir gert við það, engra skýrslna krafizt af ríkisstj. um það, hvað liði framkvæmd l. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Það kemur einmitt greinilega fram af gögnum málsins, þeim till., sem ég hef hér meðferðis, að hann hefur einmitt gert slíkar athugasemdir, þar sem hann bar tvívegis fram till. til breytinga á frv. þess efnis, að ráðh. skyldi vera skylt að birta nöfnin, ef álagningin færi 50% fram úr því, sem var meðan fjárhagsráð eða viðskiptaráð ákváðu hámarksálagningu. Þessi tillaga var einmitt fram borin eftir umr., sem fram fóru innan nefndarinnar og leiddu það í ljós, að hæstv. viðskmrh. vildi engin ákveðin svör við því gefa, hvað hann teldi óhóflega álagningu. M.ö.o., ráðuneytið fékkst ekki til þess að gefa nein skýr svör við því, hvenær það ætlaði sér að birta nöfn manna, sem gerðust sekir um óhóflega álagningu. Þetta átti því allt að vera á huldu. Þess vegna var það, sem fulltrúi Alþfl. í allshn. Ed. bar fram till. um að gera þetta algerlega skýrt og ótvírætt og kveða á um, hvenær um skyldu til nafnabirtingarinnar skyldi vera að ræða. Á það vildi meiri hl. hv. Ed. ekki fallast, og var þessi till. felld.

Enn situr því við það sama, að menn geta ekki fengið að vita, hvenær þeir að þessu leyti brjóta settar reglur, hvenær þeir eru að vinna til þess, að nöfn þeirra skuli vera birt opinberlega. Í slíkum lögum er almenningi náttúrlega litið hald. En það má líka segja, að öryggi kaupmanna gagnvart svona lagasetningu sé mjög litið, að geta aldrei vitað, hvenær þeir eru að leggja það mikið á, að það yrði talið refsivert í þeim skilningi, að nöfn þeirra yrðu birt, og hvenær ekki. Slík lagasetning er mjög óheppileg. Hún kemur almenningi að litlu gagni, og hún er líka ranglát gagnvart þeim aðilum, sem hún er sett til höfuðs, þ.e.a.s. kaupmannastéttinni, vegna þess að þeir geta átt von á því, að nöfn þeirra séu birt, sem hafa kannske lagt of mikið á, án þess þó að hafa getað gert sér grein fyrir því áður, að þessi álagning, sem þar er verið að refsa fyrir, sé talin óhófleg. Það er því ekki einvörðungu, að lagasetningin, nái hún fram að ganga í þessu formi, sem frv. nú er í, sé gagnslítil fyrir almenning, heldur er hún einnig ranglát í garð verzlunarstéttarinnar.