23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

42. mál, verðlag

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, vegna þess að ég veitti því athygli núna, að í till. hv. þm. A-Húnv. felst meira, en hann hefur mælt fyrir í ræðu sinni. Ég veit ekki, hvort hv. frsm. n. hefur athugað það, en á það vildi ég benda honum og þar með nefndinni, að í till. felst það, að 3. gr. í frv. skuli falla alveg burt, en í 3. gr. er meira en það, sem hv. þm. gerði að umtalsefni. Þar er kveðið svo á, að verðgæzlunefndin, sem ákvæði eru um í öðrum lögum, skuli hafa rétt til þess að fá upplýsingar og skýrslur hjá verðgæzlustjóra um verðlag og verðgæzlu, og hefur hún tillögurétt um þessi mál, og enn fremur að verðgæzlustjóri skuli mæta á fundum nefndarinnar, ef hún óskar þess, til umræðu um verðlagsmál. Ég vil benda hv. þm. á, að það hefur alls ekki dregizt inn í umræðurnar, hvort þessi ákvæði skuli falla niður. Hv. frsm. mælti ekki fyrir þessu, og ég vona, að það sé ekki þetta, sem hann á við, því að það hlýtur vissulega að verða mikið ágreiningsmál.

Eins og hv. frsm. allshn. tók fram á sínum tíma, þá var þessi lagasetning liður í samkomulagi, sem gert var við launþegasamtökin, við Bandalag opinberra starfsmanna og Alþýðusambandið, og einmitt á þetta atriði var af hálfu launþegasamtakanna lögð allmikil áherzla, þ.e.a.s., að verðgæzlunefndin hefði rétt til að fá upplýsingar um verðgæzlumálin og hefði tillögurétt um þau. Mér finnst það ekki ná nokkurri átt, sérstaklega án þess að að því hafi verið víkið í umr., að fella þessi ákvæði niður við 3. umr. málsins í síðarí d., þar sem þetta frv. er til staðfestingar á brbl.

Ég vildi beina því til frsm. n., hvort hann hafi veitt því athygli, að þetta felst í till.