03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

42. mál, verðlag

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. spurði að því, hvað liði framkvæmd gildandi l. um það efni, sem frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um. þ.e.a.s. framkvæmd brbl.

Það stendur þannig, að verðgæzlustjóri, sem á að hafa framkvæmd á þessu, hefur óskað eftir reglum um framkvæmdina að því er varðar vefnaðarvörur. Hann hefur þegar fyrir nokkuð löngu fengið fyrirmæli um að birta nöfn þeirra fyrirtækja, sem hafa farið fram úr því marki, sem honum var gefið með þá vörutegund. Ráðuneytið hefur ekki sett neinar allsherjarreglur í sambandi við þessi l. Það er heldur erfitt að framkvæma þetta, eins og ég hef tekið fram áður við þessar umr., án þess að fyrirmælin komi sem bein ný hámarksákvæði, sem hvorki vakir fyrir mér né ríkisstj. í heild að komi út úr þessu. Þau fyrirmæli, sem hann hefur fengið í sambandi við þennan eina vöruflokk, sem um er að ræða, eru gerð með tilliti til þess, að það er í fyrsta skipti, sem hér er um þetta að ræða. Í þetta skipti hefur hann fengið fyrirmæli um að birta nöfn þeirra, sem fara fram yfir 25% í heildsölu, og nöfn þeirra, sem fara fram yfir 50% í smásölu með venjulega vefnaðarvöru og fatnað og 60% fyrir smávöru. Það er jafnframt tekið fram, að þetta er ekki nein gildandi regla um framtíðina, heldur framkvæmd í fyrsta skipti, sem þetta er gert.

Ég skal ekki segja, að hvaða ráði verður horfið með framkvæmd þessara l., sem hér liggja fyrir. Mér er ljóst, að það er erfitt og vanþakklátt að setja reglur um slíkt. En þessi lög hafa nú tekið talsverðum breyt. í meðferð þingsins, m.a. þeirri, að verðgæzlustjóra er skylt að birta þessi nöfn, í stað þess að áður var þetta heimilt. Um leið og Ed. setti slíkt ákvæði inn í l., þá hefði náttíulega verið sanngjarnt, að d. hefði lyft þeirri byrði af viðkomandi viðskmrh., að hann ætti að framkvæma þá skyldu. Samkv. brbl. var þetta heimild, eins og ég gat um, og ætlazt til, að hægt væri að nota það sem hemil á menn, ef þeir höguðu sér ekki hóflega í sinni álagningu. Hins vegar verður því ekki neitað, að framkvæmd laganna er í raun og veru mjög þung refsing á menn. Og það má alltaf deila um það, hvenær sú hóflega álagning endar og sú óhóflega tekur við. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm., ef þeir vilja stinga hendinni í eigin barm, muni geta sjálfir sett sig inn í það, að það er ekki létt að gera það svo, að maður sé viss um, að engum sé verið að gera visvítandi eða viljandi órétt. En það er langt frá því að vera létt refsing fyrir menn að birta nöfn þeirra opinberlega á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, því að þeir eru þar með stimplaðir fyrir alþjóð sem okrarar, sem menn helzt eigi ekki að skipta við. En samkv. l. er sú skylda lögð á herðar viðskmrh., að hann ákveði, hvenær menn skuli hljóta slíka refsingu.