13.01.1953
Neðri deild: 49. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

197. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Undanfarin ár hafa verið gerðar nokkrar breytingar eða lagfæringar á tollskránni, miðað við þá reynslu, sem orðið hefur. — Hér er frv. um breyt. á tollskránni, sem undirbúið hefur verið í fjmrn. Þetta frv. er nokkru viðtækara, en venja hefur verið um hliðstæð frv. undanfarin ár. Það hafa verið tekin til íhugunar öll erindi, sem borizt hafa frá iðnaðinum um lagfæringar á hráefnatollum eða tollum á umbúðum utan um iðnaðarvarning. Enn fremur hefur verið athugað gaumgæfilega bráðabirgðanál. það, sem borizt hefur frá mþn. í iðnaðarmálum, og í samráði við iðnmrh. hafa þessi mál öll verið tekin til íhugunar. Þá hefur verið haft samband við Félag íslenzkra iðnrekenda og grennslazt eftir því, hvort það væru nokkur atriði í tollamálum, sem þeir hefðu alveg sérstaklega í huga að hægt væri að leysa, án þess að það hefði verulega röskun í för með sér á tollkerfinu.

Allar þessar athuganir hafa verið gerðar, og niðurstaðan er þetta frv., sem hér liggur fyrir um breyt. á nokkrum liðum í tollskránni. Aðallega er hér um að ræða nokkrar lækkanir á hráefnistollum og tollum á umbúðum og enn fremur nokkur nýmæli í sambandi við heimildir til þess að endurgreiða tolla. Vil ég þar sérstaklega benda á, að í þessu frv. er gert ráð fyrir að heimila að endurgreiða aðflutningsgjöld eða hluta af þeim af umbúðum og efni í umbúðir um innlendar framleiðsluvörur, sem fluttar eru til útlanda til sölu þar. Þá er einnig heimilað að endurgreiða tolla af vélum, sem eingöngu eru notaðar til framleiðslu á slíkum umbúðum. Vil ég í þessu sambandi minna á, að það liggur hér fyrir hv. Alþingi sérstakt frv. um þetta atriði og ætti að verða óþarft, ef þetta frv. nær fram að ganga, sem gera verður ráð fyrir.

Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að þessu máli verði vísað til hv. fjhn., og fara fram á það við n., að hún vildi greiða fyrir því, því að ætlunin er, að það geti náð að verða að lögum á þessu þingi.