20.01.1953
Efri deild: 52. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

197. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta mál hefur verið talsvert lengi í undirbúningi. Í frv. er gert ráð fyrir að breyta nokkuð tollum á einstökum vörutegundum. Einkum er þar um að ræða iðnaðarhráefni og vörur, sem snerta iðnaðinn. Hafa verið tekin til íhugunar öll erindi, sem borizt hafa um lagfæringar á tollum vegna iðnaðarins, og haft um þetta samráð við hæstv. iðnmrh. og iðnaðarsamtökin í landinu. Félag íslenzkra iðnrekenda sér í lagi. Það hefur verið tekið hér með, sem hefur verið talið mest á liggja að fá á leiðréttingar í sambandi við þessi málefni, en hins vegar fyrirhuguð ýtarlegri athugun, einkum að því er snertir iðnaðinn og tollana. — Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni umræðu.