29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

197. mál, tollskrá o.fl.

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. frsm. fjhn., hv. 11. landsk. þm., virðist ekki vera hér viðstaddur, og vil ég því sem form. fjhn. gera grein fyrir hennar áliti, sem er það, eins og þskj. 641 ber með sér, að n. leggur til, að frv. verði samþ. Þó hefur einn nm., hv. þm. Barð., boðað í nál., að hann muni flytja brtt. við frv., og liggja þær nú fyrir á þskj. 650. Skal ég ekki ræða um þær að svo stöddu, aðeins geta þess, að það efni, sem brtt. hv. þm. Barð. eru um, er ekki að fullu rætt né rannsakað í n., og geri ég ráð fyrir, að á fundi n. á morgun verði það tekið fyrir á ný. Mundi því sennilega vera hentugt, að hv. þm. tæki þessar brtt. aftur til 3. umr. Annars ræður hann því að sjálfsögðu, hvað hann gerir í því efni.

N. flytur tvær brtt. við frv. á þskj. 641. Fyrri brtt. er um að lækka lítils háttar verðtoll á manchettskyrtum, eða úr 50 í 40. Ég tel ekki þessa brtt. mjög veigamikla, en það varð ofan á í n. að mæla með þeirri breyt. Önnur brtt. er aðeins leiðrétting, og mundi hafa verið fært að leiðrétta það í prentun, því að þar sem stendur „tveir nýir stafliðir“ í 3. tölul., þar koma á eftir þrír stafliðir, og er það því auðsjáanlega prentvilla. Það á vitanlega að standa: „þrír nýir stafliðir“. En þar sem önnur brtt. er borin fram af n., og ef hún verður samþ., þá þarf að prenta frv. hvort sem er, þá má auðvitað alveg eins samþ. þessa sjálfsögðu leiðréttingu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar.