29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

197. mál, tollskrá o.fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. er ávöxtur af töluverðu starfi til þess að reyna að jafna metin á milli innlends iðnaðar og þeirrar vöru, sem við hann hefur keppt.

Ég játa, að það kunni að vera sérstakar ástæður til þess stundum, eins og hv. þm. Barð. hefur bent hér á, að bregða út frá þessu og veita iðnaðinum minni hlunnindi, en honum hafa verið veitt eða ráðgert er að veita í þessu frv. Ef það verður til þess að stöðva atvinnurekstur, eins og hv. þm. bendir á, eða setja annan innlendan atvinnurekstur í stóra hættu, þá er auðvitað ekki hægt að veita hinum innlenda iðnaði slík hlunnindi. Um þetta hljóta menn að vera sammála, þótt ágreiningur geti verið um það, hvernig eigi að meta þetta í einstökum atriðum.

En það eru önnur atriði í þessu, sem mér finnst varhugaverðara að breyta til, og ég sé, að hv. n. hefur hér tekið einn lið út úr, manehettskyrtur, og lækkað tollinn á þeim, sem þá verkar sem samsvarandi minni vernd fyrir hinn innlenda iðnað, sem hér á hlut að. Nú vitum við, að það hefur vaxið upp á seinni árum þó nokkur innlendur iðnaður í slíkri skyrtugerð, og mikið af þeirri framleiðslu er vönduð og góð vara og ekki frekar ástæða til þess að ýta undir erlenda samkeppni við þá grein iðnaðarins, heldur en aðrar greinar, sem hér eru taldar upp. Og eins og ég segi, þar sem þetta frv. er að mínu viti og samkv. því, sem fram hefur komið, byggt á allýtarlegri rannsókn sérstakra aðila um það, hvar þyrfti á vernd að halda til þess að koma í veg fyrir óeðlilega útlenda samkeppni, þá finnst mér varhugavert að taka eina slíka grein út úr eins og hér er gert og ætla að minnka hennar vernd. Nú þykist ég auðvitað ekki hafa það vit á skyrtugerð, að ég geti neitt um þetta dæmt, en þar sem ég veit, að frv. er byggt á mikilli vinnu og samstarfi fróðra aðila um þetta efni, þá finnst mér, áður en við breytum slíkum atriðum í frv., að við þurfum að fá frekari grg. en enn hefur komið fram um, af hverju þessi eini liður er hér tekinn út úr og á að veita honum minni vernd heldur en ætlað var við undirbúning málsins að sanngjarnt væri að veita honum.