29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

197. mál, tollskrá o.fl.

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þar sem hv. þm. Barð. hefur nú lýst yfir því, að hann sé fús til að taka sínar till. aftur til 3. umr., þá sé ég ekki ástæðu til þess að fara út í efni þeirra till. frekar. Ég vil þó geta þess, að ég tel það bréf, sem hann las upp, munu gefa nokkuð einhliða upplýsingar í þessu máli. Ég hef síðan n. athugaði þetta — ögn grennslazt um þetta mál, þó að það sé ekki tæmandi enn, og a.m.k. er það fullvíst, að þessi tollur á dósæfni hefur sáralitil áhrif á verð niðursuðuvaranna. Mér er t.d. kunnugt um það, að niðursoðnar grænar baunir, sem eru frá útlöndum komnar í dósum, eru seldar hér miklu hærra verði, heldur en sú vara sams konar, sem framleidd er hér á landi, og þá virðist ekki sá tollur, sem á þessu er, hafa valdið því, að innlendur iðnaður væri ekki á þessu sviði samkeppnisfær við erlendan iðnað. — Ég álít það dálítið hæpið líka, sem hv. þm. Barð. sagði, að niðursuðuverksmiðjan í Ólafsfirði hafi orðið að hætta vegna þessa tolls á dósaefni. Það munu vera allt aðrar aðalástæður a.m.k. til þess, að hún hætti, sem sé þær aðallega, að sá markaður, sem verksmiðjan hafði gert sér von um, brást, og mun tollurinn á dósaefninu hafa valdið þar litlu eða engu um.

Út af ræðu hæstv. dómsmrh. út af manchettskyrtunum vil ég nú ekki mikið ræða, því að ef satt skal segja, þá hef ég ekki neitt sterka sannfæringu fyrir því, að það eigi að lækka þennan toll á manchettskyrtum. Þetta varð nú ofan á í n., eins og ég sagði. Vitanlega lækkar þetta fremur, þó að litlu nemi, verð á þessari vöru. Og þeir, sem framleiða manchettskyrtur innanlands, ættu þó að njóta allmikillar verndar af tollinum, þó að verðtollurinn sé lækkaður um 1/5 hluta. Ég geri ráð fyrir, að meiri hl. hv. n. leggi áherzlu á, að þessi till.samþ., en ég fyrir mitt leyti mun að vísu greiða atkv. með henni, þar sem ég hef mælt með henni. Ég get ekki verið hér að halda uppi nokkrum deilum henni til varnar.