29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

197. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég verð að biðja velvirðingar á því, að ég var ekki mættur hér nógu snemma. Ég taldi, að deildarfundur hæfist ekki eins fljótt og reyndin hefur á orðið, og var því ekki viðstaddur, þegar mál þetta var tekið fyrir, sem nú er til umr., og vil ekki þess vegna neitt fara að blanda mér inn í deilur þær, sem orðið hafa, eða meiningarmun. Ég vil aðeins taka hér fram um 19. lið 1. gr. frv., að það er þannig tilkomið, að áður voru manchettskyrtur flokkaðar þannig, að goldinn var af þeim vörumagnstollur, hinn sami nú og áður, 20 aurar, en 25% verðtollur. Eftir frv. var hækkaður verðtollur á manehettskyrtum um 25%, eða tvöfaldaður. Það þótti okkur sumum nm. nokkuð hátt og áttum umræðu um þetta við þá menn, sem voru komnir til skrafs og ráðagerða við okkur, tollstjórann og skrifstofustjórann í fjmrn., og virtust þeir vera á þeirri skoðun, að það væri ekki nauðsyn á því að hafa verðtollinn það háan, og varð ofan á, — ég játa það, að ég vildi jafnvel fara niður í 35% verðtoll, — en samkomulag varð hjá n. að sýna meira en fulla sanngirni í þessu máli og hækka ekki tollinn af manchettskyrtunum meira, en um 15%, þ.e. verðtollinn. Þess vegna var það samkv. þessu, að gengið var í þá átt að vernda hinn innlenda iðnað, en þó allt í hófi og veita þeim mönnum, sem vilja kaupa manchettskyrtur, sem þeir telja að séu með betra sniði, en þær innlendu, kost á því að kaupa þær þó við hóflegu verði, þó að þeir yrðu að sæta samt sem áður lakari kosti að krónutali heldur en ef þeir sneru sér að hinum innlenda iðnaði. Við þóttumst á þennan hátt hafa gert hvort tveggja: reynt að sýna sanngirni og vernda hinn innlenda iðnað.