29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

197. mál, tollskrá o.fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það kom nú raunar fram hjá hv. þm. Barð., sem ég vildi sagt hafa, sem sé að leggja til, að þessi brtt., sem ég hef gert að umræðuefni, um skyrturnar yrði tekin aftur til 3. umr. og athuguð betur í samræmi við tollun á öðrum hliðstæðum vörum og eins til samanburðar við þá aðila, sem sömdu þetta frv. Eins og ég sagði áður, þá er frv. ávöxtur, að því er ég bezt veit, af allýtarlegu samstarfi margra aðila til þess að setja reglur, sem gætu komið í veg fyrir óeðlilega samkeppni við innlendan iðnað, og mér finnst þurfa ýtarleg rök til þess, að horfið sé frá þeim reglum, sem þar voru settar. Ef slík rök koma fram, þá er auðvitað sjálfsagt að beygja sig fyrir þeim, en mér finnst rétt, að fengið sé að minnsta kosti álit þeirra manna, sem að þessu hafa unnið, til þess að það sé þá fullt samræmi í því, sem gert er, og að það sé athugað, ef þessu er breytt, hvort af því hljóti þá ekki einnig til samræmis að leiða ýmsar aðrar breyt. á frv. Hitt vitum við öll, sem hér erum, að þetta frv. stefnir að því að veita innlendum iðnaði vernd, sem merkir það að bægja frá erlendum vörum, sem ella mundu verða ódýrari og geta keppt við hinn innlenda iðnað, og það er því ekkert sérstakt um manchettskyrturnar. Það er einungis einn þáttur í þeirri vernd, sem hér er verið að veita. En ég vildi mjög taka undir það, að brtt. yrði tekin aftur til 3. umr., til þess að frekari íhugun málsins gæti átt sér stað.