03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

197. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur enn að nýju athugað betur frv. þetta um tollskrána og breyt. á henni, sem hér liggur nú fyrir til 3. umr.

Ég hafði við 2. umr. ásamt hv. form. n. gert nokkra grein fyrir afstöðu okkar þar. Við töldum, að þeir menn, sem hefðu unnið að þessari tollskrá, breytingunni, sem gerð er með frv., hefðu gert það með alúð og samvizkusemi, enda var slíks þaðan von. Það voru menn, sem höfðu bæði vit og samvizkusemi til að gera það sæmilega, tollstjórinn og skrifstofustjórinn í fjmrn. Og Nd., sem hafði frv. þetta til athugunar, hafði mjög litið við það að athuga, og mátti heita, að það bærist óbreytt hingað.

Þegar við fórum að athuga frv., rákum við okkur sameiginlega á dálitla annmarka á frv. og lögðum fram brtt. í þá átt að lagfæra það. Einnig var það seinna, að það kom fram, að hér væru ekki öll kurl komin til grafar, og var það hv. þm. Barð., sem bar það fram, og það var um það, að gufuvélahlutar væru hátt tollaðir, miðað við annað svipað. Er það rétt hjá honum, og töldum við það mjög til athugunar, bárum það undir tollstjóra og skrifstofustjóra fjmrn., sem sögðu, að þeir væru því ekki mótfallnir, að þar kæmi einhver breyt. á. Ég skal geta þess, að einmitt þessir hlutar voru áður fyrr með 30% verðtoll, en voru með seinni lögum færðir niður í 8% verðtoll, og sýnist okkur það nokkur bót, þótt betur megi ef til vill, ef duga skal. En sem sagt, sumt af þessum varahlutum kemur hér ekki til tollafgreiðslu, þeir berast með skipunum, sem þeir koma með og þeir eru látnir í, berast þannig að Slippnum, að ekki er tekinn tollur af þeim, eftir því sem okkur er sagt. Þess vegna verðum við að telja, að það sé ekki svo mikið undir þessum atvikum komið, hvort það er hærra eða lægra, fært niður í 2%, það er þá 6%, sem það munar. En þegar maður tekur tillit til þess, að nú hefur verðtollurinn verið færður á skömmum tíma úr 30% niður í 8%, þá er þarna nokkur bót á ráðin.

Ég vil segja það einnig um verðtoll af manehettskyrtum, sem við héldum fram og vildum ekki taka aftur till. okkar um að væri færður niður um 10% frá því, sem frv. segir, úr 50% niður í 40%, að segja má, að það sé rétt og gangi mjög í þá átt, sem vera ber, að lækka þann toll frá því, sem áður var. En ef við litum á tímana, eins og þeir nú eru og eru fram undan, þá er í raun og veru þetta mál ekki svo mikils virði sem það sýnist fljótlega. Nú er mér tjáð og ég hef komizt að því, að innflutningur á manehettskyrtum yfirleitt úr bómull eða þess háttar sé langt til að hverfa, en aftur komi í stað þess skyrtur úr nylon og þess háttar efnum, sem eru ekki tollaðar undir þeirri grein, sem manehettskyrtur eru tollaðar, heldur allt öðru, þ.e. nylonvörum, svo að þetta er í raun og veru ekki svo mjög praktískt. Annars verð ég að telja það, að það sé frekar til bóta en hitt að laga þetta, en þar sem virzt hefur, að stjórnin telji nauðsynlegt, og við vitum allir þm., að nauðsynlegt er að koma þessu máli í höfn, tolllögunum, eins og þau eru, þá er það spursmál, hvort það er rétt að leggja í hættu vegna jafnlítilfjörlegra atvika eins og ég hef hér minnzt á og nálega engu munar fyrir kaupendur eða ríkissjóð. Þess vegna var það okkar álit, að þótt við tökum ekki till. okkar aftur, meiri hl. n., um manchettskyrtur, þá leggjum við enga áherzlu á, að sú brtt. okkar verði samþ., ef á annað borð er ekki samþ. fleira í frv. — En nóg um það.

Nú kem ég að aðalmálinu, sem hér mun verða til umr., og skal ég ekki fara að teygja lopann mikið um það. Ég læt aðra tala það og flyt hér erindi, sem okkur í n. barst, bréf frá Félagi íslenzkra iðnrekenda, í svo kölluðu dósamáli, sem lá fyrir hjá n., þannig að einn nm. kom með brtt. um það að lækka toll á dósum mjög mikið, en við hinir gátum ekki fylgt þeirri till., og er hann einn um hana. Ég ætla sem sagt ekki neitt að fara að karpa við hann, hv. þm., en ég ætla að leyfa mér að lesa bréfið, sem ég gat um hér, ef hæstv. forseti leyfir. Það er dagsett 30. jan. 1953:

„Fjárhagsnefnd Ed. Alþingis, Reykjavík.

Vér leyfum oss hér með að senda yður bréf frá Dósaverksmiðjunni h/f, dags. í gær. Þar eru talin veigamikil mótrök gegn brtt. á þskj. 650 um tollalækkanir á hálfum dósum.“ — Það er vist hálfunnum dósum — (Gripið fram í.) Það stendur hálfum dósum, en á vist að vera hálfunnum, býst ég við. — „Félag ísl. iðnrekenda mælir eindregið gegn því, að brtt. þessar verði samþykktar, með tilvísun til röksemda Dósaverksmiðjunnar h/f.

Frv. það, sem nú liggur fyrir hv. Alþ. um breyt. á tollskránni, er flutt í þeim tilgangi að bæta aðstöðu iðnaðarins vegna mikillar samkeppni við innfluttan varning. Munu brtt. frv. vera byggðar á niðurstöðum rannsóknarnefndar ríkisins í iðnaðarmálum. Þess vegna teljum vér, að fyrrgreind brtt. á þskj. 650, svo og brtt. á þskj. 641,1 brjóti í bága við stefnu og markmið frv. sjálfs. Virðingarfyllst.

F. h. Félags íslenzkra iðnrekenda.

Páll S. Pálsson.“

Ég get ekki farið að lesa öll þessi skjöl hér, en af því að hér er vitnað í umsögn Dósaverksmiðjunnar, þá verð ég að taka hér upp nokkurn kafla af bréfinu.

„Reykjavík, 29. jan. 1953.

Vegna fram kominnar brtt. í Ed. Alþingis á þskj. 650 við tollskrárfrv., sem mun eiga að skilja svo, að verðtollur á hálfunnum blikkdósum lækki úr 20% í 2%, viljum við hér með láta í ljós eftirfarandi álit okkar á því máli:

1) Verðtollur á hálfunnum dósum er nú 20% +45% álag, eða 29% af cif.- verði þeirra, en það samsvarar um 20% af heildarverði dósanna kominna í vörugeymslu. Ofanrituð lækkun verðtollsins mundi því að sjálfsögðu lækka hálfsmíðaðar dósir um ca. 18%, en fullsmíðaðar um 15–16%. Þó mundi þetta engin áhrif hafa á dósaverð fyrir útflutningsvöru, því að þá er verðtollur dósanna endurgreiddur.

2) Verðlækkun þessi á dósum nær þó skammt til verðlækkunar á matvælum í slíkum dósum, svo sem sýnt skal hér með dæmum:

A) Fiskabollur í 1 kg dósum, útsöluverð um kr. 9.70, þar af tolllækkun dósarinnar samkv. ofanrituðu 22 aurar.

B) Fiskbúðingur í 1 kg dósum, útsöluverð um kr. 10.70, þar af tolllækkun dósarinnar samkv. ofanrituðu 22 aurar.

C) Grænar baunir í 1/2 kg dósum, útsöluverð um kr. 4.65, þar af tolllækkun dósarinnar samkv. ofanrituðu 14.4 aurar.

Þess skal getið, að innfluttar grænar baunir í 1/2 kg dósum kosta nú í búðum kr. 6.50, svo að ekki þarf á 14 aura verðlækkun að halda á innlendu framleiðslunni til að standast samkeppni við erlendu vöruna, þar sem hún er svo miklu dýrari.

3) Innflutningur dósa, svo að segja tollfrjálsra, hefur tvímælalaust það í för með sér, að innlend smíði þeirra fellur niður um leið, og þar sem um niðursuðudósir er að ræða, sem mest er notað af í landinu, verður ekki haldið uppi dósaverksmiðju til þess eins að smíða hinar dósategundirnar eingöngu, sem lítill markaður er fyrir.

4) Þegar innlend dósasmiði er niður fallin, hljóta að skapast örðugleikar hjá kaupendum dósa um útvegun þessara umbúða. Hvenær sem fyrirtæki þarf á dósum að halda með stuttum fyrirvara, hefur það til engra að flýja nema panta þær frá útlöndum. Það tekur marga mánuði. Ekki er unnt að fá minna magn en nokkur hundruð þúsund af sömu tegund. Margar tegundir yrði að flytja inn fullsmíðaðar, og ýmsar tegundir, sem hér eru smíðaðar eftir sérstökum óskum kaupenda, fengjust ekki.“

Þannig er þetta bréf og lengra. Ég læt þetta nægja. (Gripið fram í.) Það var vísað til þess. Ég las það áðan, það er frá Dósaverksmiðjunni h/f, undirskrifað, að mér virðist, af K. Einarssyni, en ekki Elíassyni. (Gripið fram í.) Ég skal ekki deila um það, ég er ekki svo mikill handritalesari. Ég læt þetta nægja. Ég býst við, að það verði rætt um þessi bréf núna. En við nm. gátum sem sagt ekki fylgt brtt. hv. þm. Barð., en hún er sú megintill., sem hefur verulegar afleiðingar fyrir frv. eins og það liggur fyrir, og verður þá að skeika að sköpuðu, hvernig það fer.

Ég mun ekki fara út í kappræður um þetta mál. Ég hef lesið ástæður þeirra góðu manna, sem hér eiga hlut að máli. Ég býst við, að þær verði athugaðar og talað um þær, en það getur vel farið svo, að þarna komi sá á eftir og tali, að það megi segja, að náttúran tali þar ein við sjálfa sig, þegar til kemur. Ég yfirleitt mun ekki orðlengja miklu meira til varnar. Ég vonast til þess, að hv. þdm. hafi athugað hlutina og meti þær ástæður, sem hér liggja fyrir, og verður þá að skeika að sköpuðu, hvernig atkvgr. fer.