03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

197. mál, tollskrá o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að gera hér enn tilraun til þess að fá löguð þessi ákvæði, sem hér um ræðir, og skal hér í fáum orðum gera fyrst grein fyrir þeirri till., sem ég hef borið fram hér á þskj. 650 í sambandi við hálfunnar blikkdósir.

Því hefur verið haldið fram mjög í n., að þetta gæti ekki haft nein áhrif á rekstur fyrirtækjanna, þar sem vitað væri, að framleiðsluvörurnar væru miklu ódýrari en innfluttar sams konar vörur, sem fluttar eru inn á bátagjaldeyri, og mínir hv. meðnefndarmenn hafa ekki fengizt til þess að líta á nein önnur atriði eða aðrar hliðar á málinu.

Nú skal ég í stuttu máli skýra frá því og miða þá einkum og sér í lagi við þá verksmiðju, sem ég hef verið eigandi að s.l. 14 ár — og þekki þar af leiðandi vel þessi mál öll — en hún er nú komin í eigu annarra manna, svo að það er ekki um að ræða persónulega hagsmuni frá minni hálfu að berjast fyrir þessu máli. En ég vil leyfa mér að benda á, að ef verksmiðja líkt og sú, sem hér um ræðir, framleiðir 500 þús. hálfdósir, sem kallað er, af niðursoðnum baunum, sem er um það bil það magn, sem við höfum framleitt að meðaltali á ári, þá kosta dósirnar utan um þá framleiðslu 480 þús. kr. Af því eru rúmlega 140 þús. kr. verðtollur, eða 30% af því magni.

Það má nú geta nærri, þegar verksmiðja með takmarkað veltufé þarf að kaupa inn a.m.k. 250–500 þús. dósir í einu, því að minni pöntun er ekki afgreidd, og liggja með það svo og svo langan tíma, sumpart ónotað og sumpart óselt, eftir að búið er að nota það, hvort það er ekki eitthvert atriði fyrir viðkomandi fyrirtæki að þurfa að binda þarna um 150 þús. kr. beinlínis vegna þess, að þessi skattur er lagður á af ríkissjóði. Ég veit, að þeir menn, sem eitthvað fást við atvinnurekstur, þekkja vel, hversu erfitt það er að ganga til bankanna og fá þar lánað stórt rekstrarfé og það, eins og ég segi, beinlínis til þess að geta uppfyllt lagafyrirmæli um skattgreiðslu til ríkissjóðs. Nú skal ég viðurkenna það, bæði til sóma fyrir hæstv. fjmrh. og eins fyrir viðkomandi sýslumann í Barðastrandarsýslu, að þeir hafa báðir haft ákaflega mikinn skilning á þessu máli og hafa einmitt, vegna þeirra erfiðleika, sem af þessu stafa, fallizt á að leyfa að tollafgreiða nokkurn hluta í einu og láta hitt liggja þar til þyrfti að nota það. Þetta er að sjálfsögðu tilvik frá lögunum, en hæstv. ráðh. hefur nú fallizt á þessa tilhögun einmitt vegna þess, að hann á því stigi skildi alveg nauðsynina fyrir því að koma þessu skipulagi á. Og ég held raunverulega, að ef þessi liðlegheit hefðu ekki verið sýnd, þá hefði verksmiðjan orðið að loka af þessum ástæðum, þar sem hún hefði ekki getað fengið nægilegt rekstrarfé til þess að greiða út svo stórar upphæðir í ríkissjóð og greiða siðan af þeim 8% a.m.k. í bönkunum.

Ef nú ekki væri samt sem áður horfið að þessu ráði og bitið í það súra epli að flytja þessar dósir inn hálfunnar til þess að vinna þær áframhaldandi í verksmiðjunni sjálfri, eins og gert er með sérstökum vélum, sem til þess hafa verið keyptar, þá hefði orðið að greiða fyrir þessar sömu dósir hér frá dósaverksmiðju í Reykjavík, sem nú í dag og undanfarna daga hefur óskað eftir þessari vernd, 650 þús. kr., eða 170 þús. kr. hærra en samt sem áður var hægt að kaupa þetta magn frá útlandinu, þrátt fyrir það þó það þyrfti að greiða 30% verðtoll af því. Og einmitt vegna þess, að verðlagið hér er þannig, eins og ég hef nú lýst, þá hefur aldrei allan þann tíma, sem ég hef verið eigandi að þessari verksmiðju, verið keypt ein einasta dós hér í Reykjavík af þessum tegundum, vegna þess að það hefur verið hægt að fá þær þrátt fyrir allt miklu ódýrari með því að greiða ríkissjóði þær greiðslur, sem hér um ræðir. En það raskar ekki hinu, að fyrirtæki, sem byggt var upp sumpart til reynslu, hvort hægt væri að láta slíka verksmiðju sem hér um ræðir vinna úr hráefnum og selja það annaðhvort út úr landinu eða inni í landinu, — það raskar ekki því, að það eru svo miklir erfiðleikar í sambandi við þetta, að það er engan veginn rétt viðhorf frá því opinbera að meta ekki meira en gert er hér þá tilraun, sem hér hefur verið gerð, því að ég get fullyrt það, að einmitt þetta fyrirtæki hefur á mörgum erfiðustu árunum beinlínis bjargað þessu þorpi frá neyð — beinlínis bjargað því frá neyð á þeim tímum á veturna, þegar ekkert annað hefur verið að gera, þar sem mikill hópur af konum í þorpinu og börnum hefur getað aflað nægilega mikilla tekna til þess að halda uppi heimilinu, á meðan heimilisfeðurnir hafa ekki haft neinn starfa yfir mánuðina oft og tíðum frá 1. nóv. til 1. apríl. Og það væri mjög illa farið, ef hæstv. ríkisstj. með ranglátri tollalöggjöf beinlínis ynni að því, að slík starfsemi yrði lögð niður, og það er því hörmulegra, ef það er gert til þess að vernda aðrar atvinnugreinar hér í Rvík, sem ekki hafa heldur óhag af því, að þessi till. verði samþ., því að reynslan hefur, eins og ég tók fram áðan, sýnt það, að hún hefur hvorki haft af því tekjur né gróða, vegna þess að það hafa engin viðskipti átt sér hér stað.

Nú sagði hæstv. dómsmrh. það alveg réttilega hér fyrir nokkru og eins endurtók hv. frsm. það hér, að sú breyt., sem nú er verið að gera á tollalöggjöf landsins og nú liggur hér fyrir, er alveg sérstaklega gerð til þess að styðja íslenzkan iðnað og skapa á þann hátt möguleika fyrir fólk til þess að starfa í staðinn fyrir að halda að sér höndum. Þess vegna finnst mér vera enn meiri nauðsyn á, að einmitt hv. Alþingi viðurkenni, að þessi grein þarf að breytast til þess að tryggja þetta meginatriði, sem verið er að reyna að ná með löggjöfinni, því að mér dettur ekki í hug að ætla hvorki iðnaðarsamböndunum það né hv. alþm., að löggjöfinni sé breytt eingöngu fyrir einhver einstök fyrirtæki á einstökum stöðum í landinu, því að það væri hróplegt ranglæti. Nú kemur hér fram í bréfi frá Dósaverksmiðjunni, að hennar innkaupsverð á þeim dósum, sem ég ræði hér um og kosta í útsölu um kr. 1.30 — þ.e. 1/2 kg dósum — er ekki nema 81 eyrir, þegar hún hefur flutt inn sams konar dósir, því að það hefur hún gert í stórum stíl. Ég hygg, að hún flytji mikið magn inn af hálfunnum dósum, líkt og niðursuðuverksmiðjur úti á landi, og selji þær siðan fullunnar hér. En þá er hennar hagur frá 80 aurum og upp í kr. 1.30, eða hvorki meira né minna en 49 aurar á hverja dós. Og ég verð að segja það, að mér finnst, að þær sneiðar séu skornar ákaflega þykkar til eins fyrirtækis, ef þær jafnframt eiga að vera til þess að íþyngja eða loka möguleikunum fyrir öðrum fyrirtækjum að starfa. En þetta eru ekki tölur, sem ég er að búa til. Þær eru hér skjallegar í skjölum, sem send eru frá sjálfri Dósaverksmiðjunni.

Ég get vel skilið það, að þegar eingöngu ræður eigingirni hjá mönnum, eins og tvímælalaust ræður hjá þessari verksmiðju eða þeim mönnum, sem hana reka, þá vilja þeir gjarnan halda þessu kerfi, flytja inn hálfunnar dósir, þótt þeir þurfi að greiða ríkissjóði 30% í verðtoll, þegar þeir geta svo lagt 30% ofan á það aftur til þeirra, sem kaupa af þeim dósirnar, því að þá verður þeirra hagur því meiri. Bezt væri líklega fyrir þá, þegar þeir væru búnir að fá slíka aðstöðu, að tollurinn væri ekki 30%, heldur 130%, því að þeim mun meiri yrði ágóðinn í þeirra hlut, þegar ekki er hægt annað en að lúta þeirri einokunaraðstöðu, sem hér er beitt. Hitt er svo allt annað atriði, hvort það er rétt af hæstv. Alþ. að stuðla að því, að slík fjárplógsstarfsemi sé rekin hér af einstökum mönnum, og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að Alþingi vilji leggja blessun sína yfir það.

Það hefur verið bent á það alveg réttilega, m.a. af hv. form. fjhn., sem ég viðurkenni að hefur haldið fjöldamarga fundi um þetta mál og gefið n. mjög mikið tækifæri til þess að ræða það, að umbúðirnar séu svo lítið atriði í sambandi við útsöluverðið, að þetta ætti ekki að muna svo miklu fyrir verksmiðjurnar, en það raskar ekki þeim staðreyndum, sem ég hef hér tekið fram í sambandi við erfiðleikana í atvinnurekstrinum. Þessar dósir, sem ég hef talað hér um og kosta 96 aura, eru seldar á framleiðsluverði frá verksmiðjunni fyrir rúmar 3 krónur, þótt þær séu nú seldar, þegar þær eru komnar hér í búðir og búnar að ganga í gegnum þann hreinsunareld allan, á 4 kr. og eitthvað. Hins vegar er markaðurinn takmarkaður. Það er ekki nema takmarkað magn, sem hægt er að framleiða fyrir íslenzkan markað, og þegar hann er þess utan fylltur af erlendum sams konar niðursuðuvörum, þótt þær séu allmiklu dýrari, þá eru þær þó óneitanlega að flækjast fyrir á markaðnum, og enginn, sem hefur étið baunadós, sem kostar 6–7 krónur, fer að bæta á sig annarrí, þótt hún kosti ekki nema 4–5 krónur, ef hann hefur hvorki þörf fyrir það né lyst. En það hefur verið eitt af því, sem hefur torveldað að nota íslenzka markaðinn fyrir niðursuðuvörur, að aðrar erlendar niðursuðuvörur hafa verið settar inn á markaðinn.

Þetta vildi ég láta koma fram hér í sambandi við þetta mál, áður en gengið er til atkvæða um það. Ég skal viðurkenna, að það væri alveg óþarfi fyrir þessa verksmiðju að vera að berjast fyrir þessu máli, ef hún ætlaði sér eingöngu að starfa að útflutningsverðmæti, því að þá fæst tollurinn endurgreiddur. En bæði er það, að þessi verksmiðja, sem ég ræði um hér, hefur fengið á síg sérstakt orð fyrir niðursuðu til neyzlu innanlands, bæði hvað snertir baunir, gulrætur, rauðrófur og kjötvörur allar, og hún hefur öll þessi ár og ekki hvað sízt á meðan erfitt var að selja alla kjötframleiðsluna verið mjög mikið til hjálpar fyrir bændur að taka einmitt það kjötið, sem erfiðast var að selja á innlendum markaði, til að sjóða það niður, og hjálpaði þar í stórum stíl þeim sveitum, sem voru í kringum staðinn. Það væri illa farið að launa það og þá starfsemi alla, sem verksmiðjan hefur gert í sínu uppbyggingarstarfi í niðursuðu, með því að halda enn þá þeim tolli, sem hér um ræðir, til erfiðleika fyrir landbúnaðinn.

Ég mun svo láta þetta nægja í sambandi við þessa till.

Hvað snertir till. mína á þskj. 720, þá leyfi ég mér að upplýsa, að á bls. 48 í tollskránni er sagt undir tölulið 30, að bifvélar og hlutar til þeirra skuli greiddar með 2 aura vörumagnstolli og 2% verðtolli, en aftur á móti gufuvélar og hlutar til þeirra skulu tollast með 2 aura vörumagnstolli og 8% verðtolli. Nú er það svo, að því meir sem torveldast viðskiptin við Bretland, því færri ferðir fara skip nú, sérstaklega veiðiskipin, togararnir, til Englands á ári og koma þar kannske ekki vikum og mánuðum saman. Það er því alveg óhjákvæmilegt fyrir þessa aðila að flytja inn í allstórum stíl varahluta, ýmist hálfunna eða fullunna, til þess að halda gangandi þeim vélum, sem unnið er með um borð í skipunum. Á meðan togaraútgerðin hafði nægilegt fé, þá mótmælti hún því engan veginn að greiða, eins og hv. frsm. tók fram, 30% verðtoll af þessum hlutum, því að sumpart var það raunverulega til lækkunar á þeim tekjum, sem þeir urðu að greiða tekjuskatt af til ríkissjóðs á sínum tíma og var þá tekið á annan hátt, og sumpart munaði þá ekkert um þessi atriði, enda þá miklu minna flutt inn, meðan aðallega voru stundaðar veiðar allt árið um kring til Bretlands. En eftir að breytt hefur verið um, þannig að sum af þessum skipum koma ekki jafnvel mánuðum eða árum saman út, og erfiðleikar eru við reksturinn, þá er þetta stórkostlegt atriði fyrir þessa aðila. Ég vil m.a. benda á, að af einni skipsskrúfu verður að greiða hvorki meira né minna en 7–8 þús. kr. í toll. Og það er svo hlálega framkvæmt, að ef skipið sjálft kemur með skipsskrúfuna hingað til landsins og fer beina leið á dráttarbraut, þá þarf ekki að greiða af henni toll. En ef það kemst ekki á dráttarbrautina nema taka skrúfuna fyrst í land og setur hana nokkra metra með bil frá Ægisgarði og beina leið upp í Slippinn, þá er strax kominn á hana 7–8 þús. kr. tollur til ríkisins. Þetta hefur reynslan sýnt okkur undanfarna mánuði. Og þetta er beinlínis fyrir mistök á sínum tíma. Þeir menn, sem hafa samið þetta, hafa ekki skilið þessar aðstæður, og þess vegna ber að leiðrétta þetta. Ég veit, að hv. alþm. vilja gera þessa leiðréttingu á þessu og sjá, að þetta er sanngjarnt og rétt, þegar þeir hafa fengið skýringu á því.

Ég sé, að það er komið fram yfir þann tíma, sem hæstv. forseti hugðist að halda hér fund, og skal ekki fara út í önnur atriði, en vil þó aðeins að gefnu tilefni mótmæla því, sem hv. frsm. sagði, að nm. — eins og hann orðaði það –legðu ekki áherzlu á till. um að lækka verðtoll á skyrtum frá 50 niður í 40%. A.m.k. er mín afstaða til málsins ekki slík. Ég legg einmitt mjög mikla áherzlu á það. Ég tel, að það sé einn þátturinn í að halda niðri verðlaginu í landinu, og ég tel, að það sé nægilega mikið svigrúm fyrir þá menn, sem starfa að skyrtugerð hér á landi, ef lagður er á 40% verðtollur til varnar því, að flutt verði inn þessi vara. Ég hef þess utan fengið fullkomnar upplýsingar um það, að þrátt fyrir góðan vilja hjá viðkomandi aðilum, þá komi það þráfaldlega fyrir, að menn verði að kaupa slíka vöru annars staðar frá, og þá er það engan veginn rétt stefna í baráttu við dýrtíðarmálin að hafa þessa álagningu hærri en nauðsynlegt er. — Að öðru leyti skal ég ekki ræða þessi atriði nú.