16.01.1953
Efri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

199. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil, áður en hæstv. ráðh. fer úr d., aðeins biðja hann að hlusta á leiðréttingu mína, þar sem hann hélt því fram, að orð mín mætti skilja svo, að þetta frv. væri rothögg fyrir tryggingarnar. Þar er um meginmisskilning að ræða. Ég sagði, að það væri rothögg fyrir tryggingarnar, ef þær með samningum milli ríkisstjórnar og atvinnurekenda eða atvinnuþiggjenda ættu að verða sá aðili, sem þær eru gerðar að hér, og það er allt annars eðlis. Ég vil biðja hæstv. ráðh. að athuga þetta. Hæstv. ráðh. sagði einnig, að við hefðum komið eins og ofan úr skýjunum hér í þessu máli nú eftir áramótin. Þetta er alveg misskilningur. Það var ekkert hægara fyrir hæstv. ráðh. heldur en einmitt að hafa fullt samkomulag við heilbr.- og félmn. þessarar hv. d., sem hann vissi vei að ávallt hafði þessi mál til meðferðar, og leita samvinnu við hana um að leysa þau vandamál, sem stóðu í sambandi við lausn þessara mála. Mér hefur verið alveg ókunnugt um, að vinnudeilan væri leyst á þennan hátt, sem hér um ræðir; og að lausn hennar þyrfti að kosta þessa stofnun svo mikið sem það hefur gert, er ég fyrst að fá að vita nú.

Ég vil svo aðeins að síðustu benda hæstv. ráðh. á það, að það er einn reginmisskilningur, að ríkisstj. hafi ekki gengið hér í meðferð málsins á þingræðið, því að ríkisstj. hefur ekkert leyfi til að gefa út brbl. á meðan þing situr, og hví skyldi hún þá hafa leyfi til að gera samninga til þess að bylta um fleiri lagabálkum án þess að spyrja þingið um á meðan það situr? Það er því sannarlega ekkert ofmælt hjá mér í sambandi við það mál.

Ég skal svo ekki tefja hæstv. ráðh. hér frekar út af þessu máli, en vildi mega hafa fullt samstarf við hann í sambandi við þær brtt., sem ég er alveg óhjákvæmilega neyddur til þess að bera fram í sambandi við umr. í nefndinni.