23.01.1953
Efri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

199. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég þarf að segja. Ég vil fyrst leyfa mér að þakka heilbr.- og félmn. allri fyrir fljóta afgreiðslu á þessu máli, vegna þess að það er orðinn dálítið naumur tími til þess, að Alþ. taki endanlega ákvörðun um það, og meiri hluta allshn., sem hefur flutt brtt. og nál. á þskj. 584, þakka ég sérstaklega afgreiðslu málsins, vegna þess að ég get fallizt á þá afgreiðslu alveg eins og hún liggur fyrir. En í samræmi við það, sem ég sagði hér við 1. umr. þessa máls, og sömuleiðis í samræmi við það, sem ég hef sagt á nefndarfundi í heilbr.- og félmn., þá sé ég mér ekki fært að fallast á þær brtt., sem bornar eru fram bæði af hv. þm. Barð. á þskj. 585 og brtt. frá hv. 7. landsk. þm., sem hann ber fram á öðru þskj.

Ég lýsti því mjög ákveðið hér við 1. umr. málsins, að ríkisstj. líti svo á, að sá samningur, sem gerður hefði verið milli deiluaðila í verkfallinu, og þær till., sem ríkisstj. lagði til í því sambandi og voru uppistaðan í því samkomulagi, sem náðist, séu algerlega bindandi, svo að það sé ekki hægt að breyta því, sem þar hefur verið gert, og þetta er óbreytt skoðun ríkisstj. enn þá. Ég veit, að þeir halda því fram, sem leggja til, að barnalífeyririnn sé skertur við eitthvert ákveðið tekjuhámark, sem þeir miða við 44 þús. eða eitthvað svoleiðis, að þeir verkamenn, sem þátt tóku í verkfallinu, muni tæplega eða alls ekki hafa hærri tekjur en þetta og sé því ekki um nein brigðmæli við þá að ræða, þó að skert væri á þennan hátt. því er nú fyrst og fremst til að svara, að þetta getur enginn sagt til um með vissu. Þetta er alls ekki rannsakað mál, en það er vitað, að í verkfalli voru stéttir eða flokkar, starfshópar, hvað sem við eigum nú að kalla það, sem margir eru með mjög háar tekjur, eins og ýmislegt iðnlært fólk, og þess vegna er ómögulegt að fullyrða neitt um þetta. Svo er og því hér til að svara, að það eru ekki einungis verkamenn, sem hér koma til greina, heldur einnig þeir atvinnurekendur, sem áttu í deilum við þá, og till. ríkisstj. snertir þessa aðila vitanlega hvora tveggja, þannig að það er ekki hægt að taka aðeins tillit til annars aðilans, heldur verður að gera það til beggja.

Hv. 4. þm. Reykv. getur þess hér í nál. og tók það sérstaklega fram í ræðu sinni áðan og beindi því til mín, hvort ég vildi ekki athuga það, hvort sáttanefndin og samninganefndir í vinnudeilunni vildu gefa álit eða segja til um það, hvort þeir teldu, að ef breytt væri ákvæðunum á þann hátt, sem hér er lagt til, að skerða eða ákveða fjölskyldubæturnar miðað við eitthvert ákveðið tekjuhámark, þá mundi vera um samningsrof að ræða. Ég skal fyrir 3. umr. málsins, sem sennilega verður ekki fyrr en eftir helgi, vera búinn að afla mér álits þessara aðila um þetta atriði, að svo miklu leyti sem það er hægt. Ég get í raun og veru engu um það lofað. Fyrst og fremst veit ég ekki, hvort þeir vilja svara þessu. Sjálfsagt er ekki hægt að skylda þá til þess á neinn hátt og mikið vafamál, að hægt sé að segja, að þessar n. séu til sem samninganefndir verkamanna og atvinnurekenda. Sú deila er leyst, sem þetta snertir. Hins vegar má kannske segja, að sáttanefndin sé til enn, því að hún hefur að minnsta kosti verið að starfi alveg fram á þennan dag varðandi aðrar deilur. En ég skal lofa því að taka þetta til athugunar og gefa þá yfirlýsingu um það, að svo miklu leyti sem hægt er, hér við 3. umr. málsins.

En að öðru leyti vil ég aðeins taka fram í sambandi við þetta, að ég fyrir mitt leyti er yfirleitt tregur til þess að vera að gera breytingar á tryggingalöggjöfinni, sem fara í þá átt að breyta þeim grundveili, sem þessi löggjöf var byggð á í upphafi, og sá grundvöllur var sá, að hér væri um hreinar tryggingar að ræða, sem menn keyptu sér, og þar væri ekkert tillit tekið til þess, hvort þeir, sem ættu að njóta trygginganna, hefðu miklar eða litlar tekjur, væru ríkir eða fátækir, ættu miklar eignir eða litlar eignir. Þetta er sá hreini tryggingagrundvöllur. Það má segja, að undantekning frá þessu hafi verið hvað snertir ellilífeyrinn, með þeim ákvæðum, sem þar er um að ræða. Það er alveg rétt, en ég er mjög ófús að fara að ganga inn á að setja ný ákvæði inn í tryggingalöggjöfina á þessum grundvelli. Ég held, að það þurfi þá einhverrar annarrar breytingar við heldur en það. Ég hef alltaf viljað líta á þetta sem tryggingalöggjöf, en ekki sem framfærslulöggjöf, þar sem mismunað væri eftir efnum og ástæðum, eins og verður að gera þegar um einhvers konar beina framfærslu er að ræða. En þetta álít ég að sjálfsögðu að verði tekið til rækilegrar athugunar við þá endurskoðun l., sem fyrirhuguð er.

Ég sé, að hv. þm. Barð., sem er mikill áhugamaður fyrir öllum þessum málum og látið hefur mjög til sín taka fyrr og síðar hér á Alþ., leggur til í einni af sínum brtt., að sú skerðing, sem framlengd var til ársloka 1954 í löggjöfinni fyrir áramótin, verði nú aðeins framlengd til loka þessa árs, og mun þetta vera gert í sambandi víð það, sem hann lýsti hér áðan, að svo mikið óréttlæti væri orðið milli þessara tveggja greina trygginganna, annars vegar fjölskyldubótanna og hins vegar ellilífeyris, að ekki væri viðunandi lengur. Ég ætla nú ekki beint að fara að rökræða þetta. Má vera, að þarna hallist eitthvað á eftir þá breytingu, sem hér er gerð. Þó er ég ekki alveg viss um það enn þá, því að við verðum að gæta þess, að eins og öll okkar skattalöggjöf hefur verið frá upphafi í þessu landi, þá hefur alltaf verið farið illa með barnafjölskyldurnar á móts við það fólk, sem engin börn hefur á framfæri sínu, og í mörgum tilfellum geysiilla, t.d. eins og gagnvart útsvarsálagningu yfirleitt og líka skattaálagningu til ríkisins, því að sá persónufrádráttur, sem þar hefur verið leyfður, hefur ekki verið nema bara örlítið brot af því, sem þarf til þess, og kemur það því þeim mun harðara niður, því stærri sem fjölskyldurnar eru og því fleiri börn. Og þetta er óréttlæti, sem við erum búnir að venja okkur við gegnum langan tíma, en auðvitað allir sjá að er algerlega öfugt, því ef við á annað borð trúum nokkuð á framtíð þjóðarinnar, trúum því, að það sé gott, að fólki fjölgi í þessu stóra landi, þá á vitanlega að búa þannig að þeim hluta þjóðarinnar, sem hefur það mikla og vandasama hlutverk með höndum að ala upp borgara þjóðfélagsins. Að mínum dómi er það ekki nema rétt og sjálfsagt, að þeir, sem ekki gera það, af hvaða ástæðu sem er, leggi eitthvað sérstaklega til þeirra mála. Þetta er mín skoðun alveg óhikað. Það hefur stundum verið talað hérna um piparsveinaskatt, mest kannske í gamni, en mér hefur aldrei sýnzt það vera algert gaman, heldur gæti ýmislegt réttlátt verið í því, þannig að út frá því sjónarmiði vil ég endurtaka það, sem ég sagði hér við 1. umr. málsins og hv. þm. Barð. fannst þá vera ofmælt hjá mér, bæði samkv. því, sem hann sagði þá, og eins samkv. ræðu sinni áðan, að ég hef ekki breytt neitt um skoðun um það atriði. En ég skal taka það fram, að hvort þetta er nákvæmlega það rétta, sem við erum hér inn á og sett er í flýti, eins og gert var, og að of lítið yfirveguðu máli, — ég skal ósköp vel viðurkenna það, eins og ástatt var, — það er allt annað mál, en hinu held ég fram, að það sé rétt leið, þetta þurfi að endurskoða.

Hv. þm. Barð. sló því fram í ræðu sinni við 1. umr. málsins, að hann vildi þá, að endurskoðun færi fram á þessari löggjöf nú strax á þessu árí. Hv. 4. þm. Reykv., forstjóri almannatrygginganna, hefur mælt á móti þessu út frá því, að rétt og eðlilegt væri að sjá nú, hvernig þessi nýju ákvæði verkuðu, áður en það yrði tekið til gaumgæfilegrar athugunar, hvort ætti að halda þeim óbreyttum eða breyta þeim á einhvern hátt í samræmi við aðra þætti trygginganna, og fellst ég algerlega á hans sjónarmið í því máli. Og þó að það muni vera svo, að það sé ekki beint tekið fram í tryggingalöggjöfinni, — eins og ég reyndar hélt að væri nú, — að endurskoðun skyldi fara fram á árinu 1954, þá má þó víst segja, að það sé sama sem ákveðið, því að ýmsar reglugerðir í sambandi við almannatryggingalöggjöfina ern miðaðar við það, að þær gildi ekki lengur, og hafa verið samdar með það fyrir augum að vera til þess að reyna löggjöfina og með það sjónarmið, að þá færi fram almenn endurskoðun. Þykist ég líka vita, að Alþ. eða þeir, sem þá eiga þar sæti, muni verða sammála um, að slík endurskoðun sé sjálfsögð á jafngeysilega miklum og flóknum lagabálki eins og tryggingalöggjöfin er.

Ég sé nú í raun og veru ekki ástæðu til þess að hafa miklu fleiri orð um þetta. Það er síður en svo, að ég sé undrandi yfir því, þó að hv. alþm. líti misjafnlega á þessi mál og hafi mismunandi skoðanir um þau. Það er langt frá því, að mér þyki það einkennilegt, en það, sem hér hefur gerzt í þessu máli, er öllum kunnugt, og ég hélt að minnsta kosti, að þeim, sem eru í þeim flokkum, sem styðja núverandi ríkisstj., hefði verið þetta mál svo kunnugt, meðan á döfinni var að gera þessar breytingar í sambandi við vinnudeiluna, að þá hefði verið eðlilegt, að komið hefðu fram ákveðin andmæli gegn þessu, en að frá þeim eigi þau siður heima nú, þegar komið er í það horf, sem hér er. Það er það, sem mér þykir dálítið einkennilegt varðandi þessi mál eins og þau liggja fyrir.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að taka fram.