29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

199. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég verð að biðja afsökunar; ég er svo hás, að ég get varla látið til mín heyra, og mun nú ekki tala langt mál. En það var undir umr. um þetta frv., við 2. umr. hér í hv. d., óskað eftir því sérstaklega af hv. 4. þm. Reykv., að ég grennslaðist eftir áliti þeirrar sáttanefndar, sem ríkisstj. skipaði í vinnudeilu þeirri, sem átti sér stað fyrir jólin, um það, hvort n. teldi, að það, sem felst í till., sem hér hafa komið fram um það, að sú hækkun á fjölskyldubótum, sem ákveðin er, skuli miðuð við eitthvert ákveðið tekjuhámark, væri talið brigð á þeim samningum, sem gerðir voru milli aðila í vinnudeilunni. Ég lofaði að láta athuga þetta fyrir 3. umr. og bað því sáttanefndina að segja álit sitt um þetta. Þessi sáttanefnd var skipuð 4 mönnum. Formaður hennar var Torfi Hjartarson tollstjóri, sem jafnframt er sáttasemjari ríkisins. Með honum voru í nefndinni Emil Jónsson vitamálastjóri og alþm., Gunnlaugur Briem skrifstofustjóri og Jónatan Hallvarðsson forseti hæstaréttar. Þeir hafa tjáð mér, að vísu munnlega aðeins, en þó leyft mér að hafa það eftir sér, að eftir að hafa athugað þetta atriði geti þeir ekki litið öðruvísi á en að það mætti skoðast sem riftun á samningnum, ef svona ákvæði yrðu lögfest. Eins og gefur að skilja, er hér ekki um neinn bindandi úrskurð að ræða, heldur er hér aðeins um álit sáttan. að tala, sem hún leyfði mér þó að hafa eftir hér á hinu háa Alþ.

Ég hef í raun og veru engu við þetta að bæta. Bæði við 1. og 2. umr. málsins hér í hv. d. lýsti ég afstöðu ríkisstj. til þess máls og að hún liti svo á, að ekki væri unnt að breyta efnislega þeim ákvæðum um fjölskyldubæturnar, sem sett voru inn í samninginn. Ríkisstj. er enn algerlega á sama máli um þetta, og styrkir það álit hennar frekar, að sáttan. virðist vera þar algerlega á sama máli.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að tala frekar um það frv., sem hér liggur fyrir. Ég var áður búinn að taka fram allt, er mér virtist máli skipta varðandi frv. og varðandi þær brtt., sem fyrir liggja við það, og sé ég því ekki ástæðu til þess að fara að endurtaka það hér.