30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

199. mál, almannatryggingar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Út af því stóra máli, sem hér er lagt fram um breytingar á almannatryggingal., þykir mér ástæða til að segja örfá orð, einkum með tilliti til þeirra upplýsinga, sem hæstv. forsrh. hefur gefið í sambandi við málið.

Það er alkunnugt mál, að gjöldin til trygginganna eru orðin almenningi ærið há, og ekki sízt vert að minnast þess, að mörg sveitarfélóg eru illa við því búin að hækka þessi gjöld, og hefur meira að segja gengið mjög illa að innheimta þau hjá sumum sveitarfélögum. Nú verð ég að segja það, að hvað sem því líður, að það sé langt gengið að gera svo stóra samninga sem hér er um að ræða, án þess að bera þá fyrir fram undir Alþ., þá er það þó út af fyrir sig, að þeir samningar gildi um verkamennina í landinu eða þá menn, sem stóðu í deilum um kaup og kjör, og þar með auðvitað aðra þá, sem ekki eru á föstum launum. En ef það er svo, að þessir samningar eru þannig úr garði gerðir, eins og hæstv. forsrh. upplýsti, að þeir eigi einnig að gilda um alla launastéttina, alla fastlaunaða menn í landinu, hvað há laun sem þeir hafi, og einnig alla atvinnurekendur, sem hafa börn á sínu framfæri, þá þykir mér það mjög undarlegt, ef það er rétt, að svo langt hafi verið gengið í þessum samningum, að þetta eigi að gilda um allar stéttir í þjóðfélaginu. Þess vegna vil ég óska þess, að sú hv. n., sem fær þetta til athugunar, geri á því frekari rannsókn, hvort það er virkilega svo, að þessir samningar eigi líka að gilda um alla aðra en þá, sem stóðu í vinnudeilum og samningarnir eru gerðir út af. Ég get ósköp vel skilið það, að það mundi þýða eða vera talið brot á samningunum, ef það væri sett eitthvert tekjuhámark varðandi verkamenn eða aðra þá, sem eru í óvissu um það að hafa atvinnu. En frá mínu sjónarmiði gildir allt öðru máli um þá, sem eru á föstum launum, hvar sem þeir eru í starfi, og eins um þá, sem stunda atvinnurekstur sjálfir. En það var svo að skilja af ræðu hæstv. forsrh., að þessar auknu fjölskyldubætur ættu að gilda um alla menn í landinu.