30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

199. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins út af því, sem hv. þm. A-Húnv. skaut hér fram og óskaði eftir að n. athugaði, hvort nauðsynlegt væri, að þessar auknu fjölskyldubætur næðu til allra þegna þjóðfélagsins, sem þennan barnahóp hefðu á framfæri sínu, svo sem gert er ráð fyrir, taka það fram, að bæði er það greinilegt í þeim samningi, sem þegar hefur verið birtur opinberlega, að þannig voru fjölskyldubæturnar hugsaðar í fyrstu, og svo vil ég á það benda, að ef ætti að setja eitthvert tekjuhámark, sem tryggði það, að þeir aðilar, sem væru í deilunni, rækju sig ekki upp undir, — ja, hvar ætti að setja það? Þetta snertir ekki einungis verkamennina, sem voru í deilunni; þetta snertir allt að einu atvinnurekendurna. Tillögurnar voru vitanlega miðaðar við báða aðila, og það eru ekki einungis verkamenn, sem geta talið, að riftun sé á samningnum, heldur vitanlega einnig atvinnurekendur, ef ekki er staðið við þau loforð, sem þessum aðilum báðum voru gefin meðan deilan stóð yfir. Það er aðeins þetta atriði, sem ég vildi taka fram í sambandi við þessi ummæli hv. þm. A-Húnv., en ætla ekki að öðru leyti að fara að ræða þetta atriði hér, því að það er þá eðlilegra, að það sé gert þegar hv. n. er búin að athuga frv. og átta sig á því, hvernig hún vill láta afgr. það. Að sjálfsögðu skal það tekið fram, að henni skuli látnar í té allar þær upplýsingar, sem hún óskar eftir varðandi þetta mál.

Um það, að ekki hefði átt að afgr. svona stórt mál nema leggja það fyrir Alþingi, eins og mér heyrðist á hv. þm. A-Húnv., þá held ég nú, að hv. þm. A-Húnv. sé bæði svo gamalreyndur þm. og glöggur maður, að hann viti það, að í öðru eins samningamakki og alltaf á sér stað, þegar jafnmiklir samningar eru á döfinni eins og þessir, þá er ekki hægt að hlaupa með hvert atriði fyrir Alþingi. Hitt undrar mig aftur á móti, ef hv. þm. A-Húnv. hefur ekki vitað um þessi mál, hvernig þau gengu. Ég gat frekar búizt við, að hér risu upp hv. alþm. úr öðrum flokkum og teldu, að þeir hefðu ekki vitað neitt, hvernig þessi mál hefðu gengið, meðan á vinnudeilunni stóð, en ég bjóst tæplega við því með hv. þm. A-Húnv.