03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

199. mál, almannatryggingar

Frsm, meiri hl. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki hafa mörg orð um þessar till.

Síðan ég hélt framsöguræðu í gær fyrir þessu máli, hefur ýmislegt komið fram, ýmsar brtt., sem ég vil fara um nokkrum orðum.

Það er þá fyrst brtt. á þskj. 697 frá þremur hv. landsk. þm., sem allir eiga sæti í heilbr.- og félmn., og hún er við 2. gr. frv. Sú till. fer fram á það, að íslenzkum konum, sem hafa gifzt erlendum mönnum, en svo annaðhvort skilið við þá eða þeir yfirgefið þær að fullu, fái að hafa sama rétt, ef þær dvelja á Íslandi, eins og íslenzkar ekkjur og mæður.

Þessi till. er að mínu áliti að ýmsu leyti mjög sanngjörn; ég get ekki annað sagt. En það er ekki vitað enn, hvað þær konur eru margar, og ekki heldur þá, hve mikið þarna þarf að greiða úr ríkissjóði eins og gert er ráð fyrir í till. En sennilega er þar ekki um mjög háa upphæð að ræða, — ég gæti trúað svona 200 þús. kr. eða eitthvað þar um bil. En það er óvíst enn þá, og Ed. vildi ekki taka þetta inn út af því, að það var ekki búið að upplýsa það þá, og það er ekki heldur búið nú, hvað þær konur væru margar og hvað börnin væru mörg, svo að þessi till. er náttúrlega dálítið út í loftið. En ég tel hana að ýmsu leyti sanngjarna og mæli ekki beint á móti henni, þótt ég sé óviss um, að ég greiði henni atkvæði. Og ég geri ráð fyrir, að upphæðin verði aldrei það há, að hún valdi mikilli röskun á afkomu ríkissjóðs.

Aftur er öðru máli að gegna um þær till., sem hafa verið bornar fram af hv. 10. landsk., sem klauf n. og er nú með till. á þskj. 710, og þær eru við 3. gr. frv.

Það er þá fyrst það, að fjölskyldubætur skuli ekki greiddar með 2. og 3. barni þeim mönnum, sem hafa yfir 50 þús. kr. tekjur. Náttúrlega er ekki nema gott um þetta að segja. Ég tel líka í sjálfu sér ekki beint þörf á því að styrkja þá menn, sem hafa svo háar tekjur, til að ala upp sitt 2. og 3. barn. En þetta var gert í því samkomulagi, sem náðist í vinnudeilunni hér í desembermánuði, og er talið af þeirri n., sem um málið fjallaði, sjálfsögð skylda, að þessi ákvæði verði ekki aflöguð, þannig að ekki verði miðað við neitt tekjuhámark, heldur fái allir þessar bætur, hvort sem þeir hafa lágar tekjur eða háar.

En flm. sér nú ráð við því. Það er ekki annað, segir hann, en að láta ríkissjóðinn borga þann mismun, sem hér kann að vera, meðan þeir samningar standa yfir, sem gerðir voru núna fyrir áramótin. Það er nú svo, að við erum búnir að afgr. fjárl. hér fyrir nokkru, og a.m.k. lít ég svo á, að ekki sé unnt að bæta — enginn veit hvað miklu, en það skiptir a.m.k. alltaf milljónum — á ríkissjóðinn, sem hann á að taka á sig án þess að fá nokkrar tekjur á móti. Það tel ég ekki fært, og af þeim ástæðum er ég á móti þessari till. Það má náttúrlega segja það, að það sé óþarfi að láta hátekjumenn hafa svona mikið, en við verðum að gá að því, að trygging er alltaf trygging. Trygging er ekki framfærslulífeyrir; það er alveg óskylt mál. Menn geta tryggt sig fyrir hverju sem er. Menn geta tryggt sig fyrir bruna, slysum og öðru slíku, og þá er ekki spurt að því, hvort sá, sem fyrir tjóninu verður, er ríkur eða fátækur, það fá allir jafnt af því, sem þeir hafa tryggt sig fyrir. Þannig eru almannatryggingarnar. Þær greiða yfirleitt öllum jafnt, sem bætur eiga að fá, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir, og það held ég að hljóti að vera andi allra tryggingalaga.

Það er að vísu rétt, að enn þá eru í tryggingar ákvæði um það, að það megi skerða hámark ellilífeyris og örorkulauna, og er það ákvæði enn þá sem bráðabirgðaákvæði, sem vitanlega þarf að nema úr l. eins fljótt og fært er. En Alþ. hefur fram að þessu ekki séð sér fært að verða við því að nema þessa skerðingu úr l. Þá fer sami hv. þm. fram á, að elli- og örorkulaun verði stórhækkuð í grunn. Það mundi nema fyrir ríkissjóð allmörgum millj. kr. En hann segir bara, að það sé ekkert annað að gera en að ríkissjóður borgi tryggingunum það, sem umfram kann að verða, alltaf nokkrar millj. kr.

Það er náttúrlega aldrei neinn vandi að koma með svona till. um að hækka hjá öllum. Það er náttúrlega ekki nema gott um það að segja. En til þess verður að vera einhver leið. Og eins og ég gat um áðan, þá erum við búnir að afgr. fjárl., að vísu há fjárl., og flestir voru, held ég, á einu máli um það, að ekki væri nú hægt, eins og komið væri, að taka mikla útgjaldaliði á útgjaldabálk fjárl. En þarna vill þessi hv. þm. bæta við fleiri milljónum. Við vitum ekki enn þá, hvað þær yrðu margar, en þær yrðu nokkuð margar, ef hans till. væru samþ. Þess vegna leggur meiri hl. n. til, að þessar till. verði báðar felldar.

Ég skal svo ekki segja um þetta meira að sinni. En till. á þskj. 697 er sanngjörn, — ég tel hana sanngjarna, og ég mun ekki greiða atkv. á móti henni. N. hefur óbundnar hendur um þá till. En hinar till. legg ég til að verði báðar felldar, auk ákvæðis til bráðabirgða.