03.10.1952
Neðri deild: 3. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

18. mál, bæjanöfn o. fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Í lögum nr. 51 frá 1937, um bæjanöfn, er ákveðið, að greiða skuli gjald af leyfisbréfum fyrir bæjanöfn. Þetta gjald var upphaflega í lögunum ákveðið 10 kr. fyrir nýbýli, en 25 kr. fyrir hverja breytingu bæjarnafns, en er nú orðið með álagi samkv. seinni lögum 24 kr. og 120 kr. Nú hefur það valdið ýmsum óþægindum og töfum, að þetta gjald er heimtað af breytingu á bæjanöfnum og af nýjum bæjanöfnum, og þar sem þetta skiptir engu máli fyrir ríkissjóð, þá telur ráðuneytið rétt að leggja til, að þetta gjald sé látið niður falla, og því er þetta frv. fram borið. — Ég vil leggja til, að að lokinni umr. verði málinu vísað til 2. umr. og menntmn.