31.10.1952
Efri deild: 19. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

18. mál, bæjanöfn o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar aðeins til þess að beina einni fyrirspurn til hæstv. menntmrh., sem hann væntanlega getur svarað, ef ekki nú þegar, þá síðar undir umr. málsins í deildinni. Það var ætlazt til þess, þegar þessi l. voru upprunalega sett, að þetta gjald, sem sett var fyrir nafnfestirnar, stæði undir kostnaði við n. Það munu vera 5 menn í n., og sá kostnaður færist svo yfir á ríkissjóðinn sjálfsagt að öllu leyti, ef þetta frv. yrði samþ. Þess vegna langar mig til að fá að vita, hver kostnaðurinn er við n.

Út af því, sem hæstv. landbrh. sagði, skal ég nú segja alveg söguna um það, þegar ég var að reyna að útvega lán út á þetta nýbýli, sem ég nefndi áðan og ekki hefur enn þá fengið staðfest nafn. Það tók mig hér um bil, 3 ár að ná því láni. Jörðin var ekki til, og enginn vissi, hvernig átti með það að fara til þess að fá veðbókarvottorð. Svo fékk ég fyrst vottorð hjá hæstv. ráðuneyti um það, að það hefði leyft, að byggt væri nýbýli á þessari jörð og þetta nýbýli hefði fengið þetta lán, sem tekið var fram í landamerkjalýsingu. Þá fékk ég vottorð hjá hreppstjóra og oddvita um það, að á þessu landi, sem þetta vottorð ráðuneytisins hefði verið um, væri búið að byggja íbúðarhús úr steinsteypu og það væri búið að rækta þar tún, sem væri orðið það stórt, að það væri alveg víst, að það væri komið þar varanlegt býli. Þetta endaði svo með því eftir mikið þjark, að ég fékk vottorð sýslumannsins um það, að á þessu landi væri búið að byggja býli, sem hefði land, innan þessara ákveðnu landamerkja væri búið að byggja nýbýli úr aðaljörð, sem væri kallað Droplaugarstaðir, en hefði ekkert löglegt heiti, og út á þetta fékk ég svo veðbókarvottorð og svo lánið. Það tók mig þrjú ár að fá þetta. Svona var nú gangurinn á því. Síðan hef ég tvisvar sinnum verið að reyna að fá nafnið staðfest fyrir bóndann og alltaf fengið synjun. Og ég get sagt frá ýmsum fleiri dæmum svipuðum, þar sem það hefur kostað mig á annað ár oft að fá nafn staðfest, þangað til ég hef getað fengið lán fyrir þennan eða hinn manninn, sem hefur verið að koma upp nýbýli. En ég hef aldrei reynt að fá skipt um nafn fyrir nokkurn mann á jörð, sem áður hefur haft nafn, því að ég tel, að það eigi ekki að gerast.