29.11.1952
Efri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

18. mál, bæjanöfn o. fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hér í brtt. hv. menntmn. er gert ráð fyrir því, að skipuð sé 5 manna nefnd, er nefnist örnefnanefnd og eigi að hafa ákveðið verkefni. Eftir því sem hv. frsm. upplýsir, mun þessi n. hafa verið til alllangan tíma og vera enn starfandi, enda minntist hann á þá aðila, sem eiga í henni sæti. Nú vildi ég gjarnan fá upplýst hjá hv. frsm., hver er kostnaður við þessa n. Ég hef ekki getað rekið mig á, að lagt sé til þessara starfa neitt framlag á fjárlögum. Eins vildi ég spyrja, hvort ekki væri eðlilegra, að þetta verkefni væri falið norrænudeild háskólans og það væri þá framkvæmt af þeim mönnum, sem þar starfa, án þess að nokkuð væri greitt fyrir það úr ríkissjóði, hvort það gæti ekki samrýmzt þeirra störfum. (Gripið fram í.) Þá held ég, að ég mundi leggja til, að n. yrði alveg lögð niður, því að ef það er ekki svo mikill áhugi hjá háskólanum, eftir að búið er að gefa honum ýmis fríðindi, að hann vilji standa á verði fyrir því, að ekki séu sett upp skrípanöfn í landinu, þá sé ég ekki, að Alþingi ætti að gera mikið að því að halda áfram að gefa þeim skóla fríðindi. En ég vil ekki trúa því um norrænudeild háskólans fyrr en ég tek á, að þeir menn vildu ekki taka að sér þetta verk, án þess að sérstaklega væri greitt fyrir það. Hins vegar er mér ekki kunnugt um, hvort nokkuð er greitt þeim mönnum, sem hér hefur verið rætt um. En mér finnst miklu eðlilegra, að málið sé afhent norrænudeild háskólans, og mun gera um það brtt., ef n. fæst ekki til þess að taka það upp.