29.11.1952
Efri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

18. mál, bæjanöfn o. fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. er nú að vísu óvanalegt að formi, þar sem það er ætlazt til, að í staðinn fyrir litla breyt. komi heill lagabálkur, og má raunar nokkuð efast um, hvort það sé rétt þinglegt form. Ég skal ekki ræða um það. Það er undir úrskurði hæstv. forseta komið. En það var út af ummælum hv. frsm. og seinni málsgr. væntanlegrar 5. gr., þ.e. e-liðar brtt. Ég verð að segja, að það sé dálítið klaufalegt orðalag, þar sem segir: „Nú þykir örnefnanefnd rétt að breyta nafni á býll“ o.s.frv. „og er þá rétt, að hún hlutist til um.“ Er dálítið klaufalegt að tvítaka orðið „rétt“ þarna. Ég vil benda hv. n. á, hvort ekki er betra að hafa á seinni staðnum: „og er henni þá heimilt“.

Sérstaklega vil ég víkja að því, þar sem það er nauðsynlegt að ljóst sé, hvort það á að vera skylda n. að hefjast handa um þessi efni eða hvort þarna er einungis um heimild að ræða. Ég skildi nú orð hv. frsm. og skil raunar greinina einnig þannig, að einungis sé um heimild að ræða, af því að nokkuð getur það orkað tvímælis, hvort rétt sé að breyta nöfnum á fornum býlum, jafnvel þótt þau séu samnefnd í sömu sýslu, býlum, sem eru alþekkt, kunnir menn hafa búið á og ýmsir rekja ættir sínar til fólks, sem þar hefur verið. Ég vil vekja athygli á því, að þetta getur verið nokkuð viðkvæmt mál, ef á að breyta fornþekktum nöfnum, og þarf töluverðrar íhugunar við. Það er allt annað, hvort menn vilja hafa vissa skipun á nýnefnum, þannig að ekki séu tekin upp ný nöfn, sem eru hin sömu eins og á öðrum stöðum þar í nágrenninu. Hitt þarf að fara mjög varlega í. En ef það er alveg ljóst, að einungis sé um heimild að ræða, og ekki ætlazt til þess, að þetta sé skoðað neitt í átt við skyldu, þá sé ég ekkert að athuga við þetta efnislega.