29.11.1952
Efri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

18. mál, bæjanöfn o. fl.

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir það, sem hæstv. dómsmrh. sagði um þetta mál eða um síðari málsgr. e-liðar brtt. Og mér finnst það ekki einhlítt, þó að skilja beri málsgr. svo, að þetta sé aðeins heimíld fyrir örnefnanefnd, því að niðurlag þessarar málsgr. er þannig, að ef n. finnur upp á því að vilja breyta nafni, t.d. á gömlu býli, þá ber fasteignareiganda að hlíta úrskurði hennar.

Ég held, að það geti, eins og hæstv. ráðh. tók fram, verið á ýmsum stöðum og undir ýmsum atvikum mjög viðkvæmt að fara að breyta t.d. nafni á jörð, sem hefur heitið svo frá landnámstíð, bara vegna þess, að í sömu sýslu kann að vera önnur jörð með sama nafni. Og satt að segja, þá held ég að sé alls engin þörf á því, að það megi ekki vera tvær eða fleiri samnefndar jarðir í sömu sýslu. Hér hefur verið minnzt á tvö Nes í Þingeyjarsýslu, Nes í Fnjóskadal og Nes í Höfðahverfi. (Gripið fram í.) Og það þriðja í Aðaldal. Ég sé nú ekki, að það geti valdið miklum ruglingi, hvað er erfitt að skrifa t.d. utan á bréf: Nes í Fnjóskadal, Nes í Höfðahverfi, Nes í Aðaldal. Hitt er lakara vitanlega, þegar jarðir eru samnefndar, sem kemur fyrir, í sömu sveit eða sama hreppi. Ég býst nú ekki við að gera ágreining um þetta við þessa umr. málsins, en ég er ekki við því búinn að samþ. þetta endanlega út úr hv. d. með þessum ákvæðum. Það er auðvitað alveg sjálfsagt að reyna að koma í veg fyrir ljót og óviðeigandi nöfn á nýjum jörðum, jafnvel að hafa einhver áhrif á það, að ef slíkt nafn er á eldri jörðum, þá sé því breytt. En að eigandi jarðar sé undir öllum kringumstæðum skyldur til að hlíta úrskurði þessarar n., það finnst mér dálítið hart aðgöngu. Mér dettur í hug sú jörð, sem ég er upprunninn frá og hef alið mestallan aldur minn á. Það eru til þrjár aðrar jarðir í Eyjafjarðarsýslu með því nafni. (Gripið fram í.) Ég vil alls ekki ganga inn á það, að það þurfi að fara að nema það nafn í burtu. Þverá í Öxnadal, Þverá í Svarfaðardal, Þverá í Eyjafirði, mér finnst þetta alveg nægilega aðgreint, þó að það sé í sömu sýslu. Ég vildi því mjög biðja hv. n. að taka þetta atriði til nýrrar yfirvegunar, og sjái ég ekki neina till. um það fyrir 3. umr., þá sé ég mér ekki annað fært en að bera fram brtt. við 3. umr., þó að ég muni nú fylgja frv. með brtt. n. við þessa umr. til bráðabirgða.