27.10.1952
Efri deild: 15. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

43. mál, bann við okri, dráttarvöxtum o. fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur legið fyrir hv. Nd. og hlotið samþykki d. óbreytt. Ástæðan fyrir því, að frv. er lagt fram, er sú, að í byrjun aprílmánaðar þessa árs voru innlánsvextir hækkaðir í Landsbankanum. Nú er það kunnugt, að sparisjóðir verða að greiða sömu innlánsvexti og bankarnir gera, til þess að þeir geti haldið því fé á vöxtum, sem þeir hafa. En við þessa hækkun, sem varð á innlánsvöxtum Landsbankans, varð mjög óhagstætt fyrir sparisjóðina að greiða slíka vexti, án þess að geta tekið hærri vexti af útlánum sínum. En eins og kunnugt er, lána sparisjóðirnir aðallega fé sitt gegn fasteignaveði, en samkv. gildandi lögum er ekki heimilt að taka hærri vexti, en 6% af lánum, sem tryggð eru með fasteignaveði. Nefnd frá helztu sparisjóðum í landinu kom til ráðuneytisins og bar sig illa vegna þess skaða, sem þeir yrðu fyrir af þessari vaxtahækkun, ef þeir fengju ekki að taka hærri vexti af lánum sínum, en þeir hafa fengið til þessa. Það var sýnilegt við nánari athugun, að ekki var hægt að komast hjá því að heimila sparisjóðunum að taka hærri vexti en 6%, til þess að þeir gætu staðið undir þeim forvaxtagreiðslum, sem nauðsynlegt væri. Þess vegna er þetta frv. fram borið. Ég vil svo leggja til að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og fjhn.