08.12.1952
Efri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

18. mál, bæjanöfn o. fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Nefndin hefur eftir ábendingu, sem kom hér fram síðast, flutt brtt. við síðari málsgr. 5. gr. og orðar hana alveg um. Hún er á þskj. 361 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nú þykir örnefnanefnd betur fara að breyta nafni á býli, annaðhvort af því að það er samnefnt öðru býli í sama sýslufélagi eða svo líkt, að hætta getur verið á mistökum, eða nafnið er málskrípi eða sérstaklega óþjált, og er þá rétt, að hún hlutist til um að fá nafninu breytt til betri vegar.“

Breyt., sem þarna er gerð, er í fyrsta lagi sú, að tekið er eftir ósk örnefnanefndarinnar inn í gr.: „eða sérstaklega óþjált“. Það er viðbót við það, sem áður var. En örnefnanefndin óskaði þess með bréfi til n., að þessu yrði bætt við, og n. féllst á það. Enn fremur er fellt aftan af, að jarðareigandi skuli hlíta úrskurði n. Þannig verður það ekki nú annað en fyrirmæli til örnefnanefndarinnar að vinna að því, að samnefningar á býlum í sömu sýslu hverfi. Vilji eigendur býlanna ekki verða við þeim óskum hennar á neinn hátt, þá getur hún ekkert gert, og þá halda nöfnin á býlunum áfram að vera mörg í sama sýslufélagi, sem við teljum óheppilegt og ég nefndi um dæmi siðast þegar málið var hér til umr. En brtt. frá þm. Barð. á þskj. 358 var áður komin. Það, sem fyrir honum vakir, er, að mér skilst, að það sé ekkert við það að athuga — eða n. eigi að minnsta kosti ekki að skipta sér af því, þótt það séu samnefni innan sýslu, en hann vill banna það innan hrepps. Þess vegna ætti hans varatill. að vera stíluð sem brtt. við brtt. okkar, að í staðinn fyrir „í sama sýslufélagi“ kæmi: í sama hreppsfélagi. — Það er meiningarmunur hér. Ég held það sé nú óhætt að leyfa n. að reyna að ná burt samnefnunum innan sýslu; það nær ekki lengra, eins og lögin verða nú. Ef menn fást ekki til þess með góðu, þá verða þau áfram, enda þótt það valdi oft ruglingi á fleiri vegu.