12.12.1952
Efri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

164. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað frv. þetta, sem er um veitingu ríkisborgararéttar. Jafnframt lágu fyrir n. nokkrar umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar, sem hún einnig athugaði. Og án þess að n. telji sig eða teldi sig vera bundna af 10 ára búsetuskilyrði, þá athugaði hún það fyrst, hversu lengi umsækjendur hefðu dvalið í landinu, og hefur ekki lagt til hér, að öðrum sé veittur ríkisborgararéttur heldur en þeim, sem eru búnir að dvelja hér í 10 ár eða meira, með einni undantekningu þó. Þessi undantekning er nr. 5 í brtt. n., en það er reglusystir í Hafnarfirði, en sú hefur verið venja að veita þeim, sem starfa með þeim hætti, þ.e. nunnunum við kaþólsku spítalana, ríkisborgararétt, ef þær sækja um hann, enda mun það vera þannig, að þegar þetta fólk er komið hingað, þá er ætlazt til þess, að það verði hér ævilangt. Þegar n. hafði svo athugað þetta atriði með búsetuna, þá athugaði hún skjöl þessa fólks að öðru leyti og hefur fullvissað sig um það, að svo miklu leyti sem það sést af skjölunum, að ekkert sé athugavert við það að veita þessu fólki ríkisborgararétt.

Ég vil geta þess um nr. 2 og 3 í till. n., að þeir eru taldir fæddir og eru fæddir í Bandaríkjum Norður-Ameríku, en eru norskir að uppruna.

Þá vil ég geta þess með nr. 7, að hann er Tékki og er ríkisfangslaus, þar eð stjórn Tékkóslóvakíu hefur ekki viljað veita honum passa. Honum hefur á hinn bóginn verið veitt leyfi til þess að flytja til Ameríku, en hann óskar fyrst og fremst að ílengjast hér og stundar nú nám í guðfræði við Háskóla Íslands.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta. Allshn. hefur í hyggju að athuga umsóknirnar örlítið betur og geymir sér rétt til þess að gera brtt. við 3. umr.