13.01.1953
Efri deild: 48. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

164. mál, ríkisborgararéttur

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Eins og fram kom af ræðu hv. formanns allshn., þá voru uppi mismunandi sjónarmið í n. við afgreiðslu þessa frv. um það, hvaða reglu skyldi fylgt um veitingu ríkisborgararéttar eða hvernig skyldi svara umsóknum þeirra manna, sem að þessu sinni höfðu sótt um að fá íslenzkan ríkisborgararétt. Meiri hl. n. tók það upp sem reglu, sem að vísu stundum hefur verið farið eftir hér í þessari hv. d. við veitingu ríkisborgararéttar, en þó engan veginn alltaf, að setja það sem skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar, að viðkomandi aðili hefði verið hér búsettur að minnsta kosti í 10 ár. Og till. meiri hl. eru við þetta miðaðar, eins og hv. form. n. hefur þegar skýrt frá.

Ég álít hins vegar, að það sé engin ástæða til þess að binda sig alveg við það, að viðkomandi aðili hafi verið búsettur hér endilega í 10 ár, heldur eigi við veitingu ríkisborgararéttar að fara eftir því, hvort viðkomandi aðili hefur raunverulega gerzt íslenzkur þegn og hefur hér tengzt þeim böndum við land og þjóð, sem líta megi á sem nokkra tryggingu fyrir því, að viðkomandi aðili ætli að ílengjast hér og ætli sér að verða íslenzkur borgari. Og ég held, að það sé nokkurn veginn ljóst um alla þá menn, sem ég hef leyft mér að flytja hér till. um að veittur yrði íslenzkur ríkisborgararéttur til viðbótar þeim, sem ýmist þegar hafa verið samþykktir eða meiri hl. n. leggur nú til að einnig verði samþykktir. Ég held, að þeir allir, sem ég hef tekið hér upp á þskj. 458, uppfylli þessi skilyrði, þannig að það verði naumast um það deilt, að það liggi alveg ljóst fyrir, að þeir séu í raun orðnir íslenzkir þegnar og ekki ástæða til að efast um, að þeir ætli sér að ílengjast hér, og að margir af þeim uppfylli þá innan mjög skamms tíma einnig þetta skilyrði, sem meiri hl. n. virðist leggja svo mikið upp úr, en ég tel ekkert höfuðatriði.

Ég skal þá lýsa í örfáum orðum aðstöðu þeirra manna, sem ég hef leyft mér að taka hér upp á þskj. 458 og legg til að einnig verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Nr. 1 er eins og nú standa sakir orðinn bóndi að Bæ í Hrútafirði. Það er Norðmaður, fertugur að aldri, kom hingað til landsins árið 1942, en eins og form. n. drap á áðan í ræðu sinni hér, þá starfaði þessi maður á vegum norska hersins fyrst eftir að hann kom hingað til lands. Það er nú að vísu ekki nákvæmlega rétt, að hann hafi komið á vegum norska hersins, og enda ekki hinir Norðmennirnir heldur, heldur hröktust þeir frá Noregi vegna styrjaldarinnar og tóku sér hæli hér, og af eðlilegum ástæðum störfuðu þeir síðan í þjónustu norska hersins hér við land, aðallega í flutningum, en ekki að hernaðaraðgerðum. En samt sem áður má náttúrlega færa fram rök fyrir því, að meðan þeir taka sér ekki lögheimili hér á landi, þá beri ekki að telja þennan tíma sem fasta búsetu þeirra hér á landi. Þessi maður starfaði sem sagt á vegum norska hersins fram til ársins 1945, tók sér síðan fastan bústað hérí Reykjavík og dvaldist hér til ársins 1948, en hefur síðan, eins og ég sagði áðan, búið að Bæ í Hrútafirði. Hann giftist íslenzkri konu, Guðbjörgu Guðmundsdóttur frá Kjörseyri í Hrútafirði, 19. maí 1945. Þau eiga tvö börn, tveggja og sex ára. Þessi Norðmaður er nú farinn að tala og skilja íslenzku samkv. vottorðum, sem umsókninni fylgja. Mér sýnist þess vegna liggja alveg ljóst fyrir, að þessi maður sé, eins og ég sagði í upphafi, orðinn íslenzkur þegn í raun og engin ástæða til þess að neita honum um íslenzkan ríkisborgararétt, þegar hann sækir um að öðlast hann.

Nr. 2 og 3 eru hjónin Jósef og Ingibjörg Felzmann. Jósef Felzmann er fæddur útlendingur, þ.e. Austurríkismaður, 42 ára, kom hingað til lands í september 1933 og dvaldist hér fram á árið 1938, að hann fór til Austurríkis, og vegna styrjaldarástandsins dvaldist hann þar lengur, en hann mun hafa ætlazt til og kom ekki hingað til lands aftur fyrr en árið 1947. Hann er giftur íslenzkri konu, Ingibjörgu Júlíusdóttur, sem er Íslendingur, fæddur Reykvíkingur, og hefur ali,ð aldur sinn hér, en hefur aðeins misst íslenzkt ríkisfang vegna þess, að hún giftist þessum útlendingi. Þau hjónin eiga tvö börn, 10 og 11 ára, og Jósef Felzmann talar og skilur íslenzka tungu. Það munar nú aðeins örlitlu, að hann nái þessum 10 ára dvalartíma, sem meiri hl. n. hefur nú bundið sig við, þannig að að minnsta kosti strax á næsta ári mundi hann uppfylla það skilyrði og mundi þá sennilega ekki verða neitað um ríkisborgararétt, ef hann sækti um hann á ný. En ég tel enga ástæðu til þess að vera að fresta því að veita honum ríkisborgararéttinn nú þegar. Og um konu hans þarf ekki að ræða, því að hún mundi að sjálfsögðu öðlast þann rétt að nýju um leið og honum væri veittur íslenzkur ríkisborgararéttur, enda — eins og ég hef áður sagt fæddur og uppalinn Íslendingur.

Nr. 4 er líka Norðmaður, eins og nr. l, 41 árs gamall. Hann kom hingað til landsins 1941 og starfaði eins og hinn í þágu norska hersins, þ.e.a.s. norska verzlunarflotans, frá árinu 1941–45. Síðan hefur hann dvalið hér í Reykjavík og verið fastur starfsmaður hjá Eimskipafélagi Íslands. Hann er giftur íslenzkri konu, Ellen Daníelsdóttur kaupmanns Halldórssonar hér í Rvík. Þau eiga tvö börn, 8 og 4 ára. Hann skilur alveg íslenzku og talar hana að mestu leyti samkv. þeim vottorðum, sem umsókninni fylgdu.

Nr. 5 er líka Norðmaður, 35 ára gamall, kom hingað til lands 8. apríl 1942 og var í flutningum á sjó á vegum norska sjóhersins til 1944. Siðan tók hann sér fast aðsetur hér í Reykjavík og hefur dvalizt ýmist hér í Reykjavík og síðan í Kópavogshreppi, er giftur íslenzkri konu, Theodóru Þorsteinsdóttur, talar og skilur íslenzku. Þessi maður hefur nú tekið sér aðsetur suður í Kópavogshreppi og á þar húseign, sem til viðbótar því, sem áður er sagt, bendir til þess, að hann sé alveg staðráðinn í því að hafa hér fast aðsetur, og er eins og hinir Norðmennirnir, sem ég þegar hef talað um, í raun og veru orðinn hér íslenzkur þegn.

Nr. 6 er einnig Norðmaður, sem er fæddur í Bandaríkjunum, þ.e. af norskum ættum, kom hingað til lands í febr. 1941, var kvaddur héðan til herþjónustu til Noregs í des. þetta sama ár og þaðan aftur til London, kom síðan hingað til lands og var hér í flutningum til ársins 1945. Það er að vísu rétt, sem hv. form. n. sagði áðan, að eftir 1945 dvaldist hann af og til erlendis, en hefur dvalizt stöðugt hér í Reykjavík síðan 8. marz 1949, auk þess sem hann hafði verið hér áður. Hann er giftur íslenzkri konu, Guðrúnu Salvöru Björnsdóttur frá Ísafirði, og þau hjón eiga þrjú börn, 11, 6 og 1 árs. Þessi maður talar og skilur íslenzku. Og hann er einnig að byggja sér íbúðarhús hér í hinu svo kallaða smáíbúðahverfi, þannig að það er engum blöðum um það að fletta, að hann er orðinn það tengdur bæði Íslendingum og Íslandi, að það er ekki um það að efast, að hann ætlar sér að dveljast hér eftirleiðis.

Eins og ég þegar hef sagt, þá lít ég þannig á, að það sé engum blöðum um það að fletta, að allir þeir menn, sem hér er um að ræða á þskj. 458, séu þegar í raun og veru orðnir íslenzkir þegnar og engin ástæða til að draga það í efa, að þeir ætli sér að dveljast hér langdvölum. Þess vegna tel ég heldur enga ástæðu til þess að neita þeim um íslenzkan ríkisborgararétt nú, þegar þeir sækja um hann, og sé enga ástæðu til þess að vera að draga það eftir því, að þeir uppfylli alveg bókstaflega þetta búsetuskilyrði, sem meiri hl. n. hefur nú bundið sínar till. við.