13.01.1953
Efri deild: 48. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

164. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forsetl. Varðandi þau ummæli hv. 4. landsk. þm., að það sé tilgangslaust eða algerlega þýðingarlaust að miða við nokkurn tíma með búsetu manna, sem veittur er ríkisborgararéttur, þá háttar nú þannig til, að Alþ. hefur ákaflega litlar upplýsingar yfirleitt, — það fylgja að vísu skjölunum ýmsar upplýsingar, en það er ekki neitt nægilegt til þess að vinna úr fullkomlega, þannig að það er nauðsynlegt að hafa einhverja reglu til þess að fara eftir. Þessi regla hefur nú verið sett upp í þeim lögum um ríkisborgararétt, hversu menn fá hann og missa, sem hafa gilt fram til þessa, og Alþ. hefur yfirleitt farið eftir reglunni um 10 ára búsetuskilyrðið, þrátt fyrir það að það hafi einstaka sinnum verið gerðar um það undantekningar, þegar sérstaklega hefur staðið á, t.d. þegar í hlut eiga íslenzkir menn, sem af einhverjum ástæðum hafa misst ríkisborgararétt sinn, og því um líkt. Það er alveg ómögulegt, það er hvergi hægt að fóta sig á því, hverjum á að veita ríkisborgararétt og hverjum ekki, ef ekki eru settar upp neinar reglur og reynt að halda þær. Og þannig er það, að þrátt fyrir það að vafalaust sé, að hér sé um ágæta menn að ræða í þeim till., sem hv. 4. landsk. þm. ber fram, — ágæta menn, sem ekki er ástæða til þess út af fyrir sig að hafa á móti að yrðu hér ríkisborgarar, þá geta komið til greina ákaflega margir menn jafnframt, sem líkt stæði á um og ættu svo til alveg jafngóðan rétt. Sannleikurinn er sá, að það er ómögulegt að vita, hvar á að draga línuna, hverjum á að veita þennan rétt og hverjum ekki, ef ekki er reynt að hafa reglu og binda sig við þá reglu. Það getur vel verið, að í einstaka tilfelli þyki manni verra að þurfa að fara eftir reglunni, en yfirleitt mun það vera hagkvæmara í framkvæmdinni.

Það er líka skoðun meiri hl. n., að það sé ekki ástæða til þess, að Alþ. sýni allt of mikinn vilja á því að veita þessi réttindi of fljótt, og að það sé engin ástæða til þess að draga sérstaklega úr þeim skilyrðum eða þeim kröfum, sem gerðar eru, þar sem líka, eins og ég sagði áður, þingnefnd t.d. hefur fjarskalega lítil skilyrði til þess að gera athuganir um hvern einstakan, hvaða siðferðislegan rétt hann á umfram aðra. Þess vegna er það, að það verður að vera ein meginregla, sem farið er eftir, og það hefur allshn. reynt að gera í till. sínum, og af þessum sökum getur n. ekki mælt með þeim till., sem hv. 4. landsk. þm. lagði hér fram. — Nú, að það megi bara ganga að þessu algerlega reglulaust og sé engin ástæða til þess, eins og hv. 4. landsk. þm. segir, að fara eftir neinu, bara eftir eigin geðþótta, þá vil ég endurtaka það, að það er svo fjarska lítið mat, sem maður hefur, og sú er nú reglan að miða margt við visst árabil eða vissan tíma, og það verður aðalregla, líkt og þegar menn fá fjárráð og lögræði á vissum tímum. Menn eru misjafnlega þroskaðir á því árabili, en þrátt fyrir það er talið rétt, að það gildi um það ein meginregla. Á sama hátt hefur Alþ. fram til þessa talið nauðsynlegt að hafa meginreglu til þess að fara eftir, og allshn. hefur lagt til, að þeirri reglu verði haldið, og miðað sínar till. við það.