13.01.1953
Efri deild: 48. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

164. mál, ríkisborgararéttur

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af þeim ummælum, sem hv. formaður og frsm. meiri hl. n. hafði hér um það, að við veitingu ríkisborgararéttar vildi ég ekki fara eftir neinu, nema þá bara eigin geðþótta, m.ö.o., að ef ekki væri farið eftir þessari 10 ára reglu, þá væri ekkert eftir til þess að fara eftir. Ég held, að þetta sé alger rangtúlkun á minni afstöðu í þessu máli, og hversu mikils virði sem þessi 10 ára regla kann að vera út af fyrir sig, þó að ég leggi lítið upp úr henni, þá vil ég þó halda því fram, sem ég sagði áðan, að hitt skipti meira máli, að viðkomandi aðilar séu í raun og veru orðnir íslenzkir þegnar, og það tel ég að menn séu orðnir, þegar þeir, eins og allir þeir, sem hér er um að ræða í mínum till., hafa tengzt íslenzkri fjölskyldu, tala og skilja íslenzkt mál, hafa unnið hér þó nokkuð langan tíma í þágu íslenzku þjóðarinnar eins og aðrir þegnar hennar og hafa að öðru leyti búið þannig um sig hér, að alveg efalaust má telja, að þeir séu staðráðnir í því að ílendast hér til frambúðar.

Þetta álít ég að sé bezta tryggingin, sem hægt er að fá fyrir því, að mennirnir verðskuldi það að hljóta íslenzkan ríkisborgararétt, og þegar þannig stendur á, þá sé engin ástæða til þess að neita þeim um hann, ef þeir að öðru leyti uppfylla þau almennu skilyrði, sem sett eru, eins og þessir menn líka gera, þ.e.a.s. þeir hafi ekki gerzt brotlegir við íslenzk lög. Um það liggja fyrir vottorð með umsóknunum, að svo er ekki um þessa menn, þannig að ég get ekki séð, að nokkur ástæða sé fyrir hendi til þess að neita þeim um íslenzkan ríkisborgararétt, nema bara þessi eina regla, sem meiri hl. n. bitur sig svo fast í, en ég tel, eins og ég áður hef sagt, miklu minna virði heldur en þau önnur skilyrði, sem ég hef lýst að þessir menn uppfylla. Og þar með vil ég þá einnig andmæla því, sem hv. formaður og frsm. meiri hl. var að tala um, að svo litlar upplýsingar lægju fyrir um þá, sem sækja um ríkisborgararétt, að Alþ. þess vegna geti ekki tekið afstöðu til þeirra og verði þess vegna að skapa sér einhverja reglu, eins og þessa 10 ára reglu, sem síðan sé farið eftir, þá líklega án tillits til alls annars, en bara hennar. Ég held einmitt, að þær upplýsingar, sem krafizt er af umsækjendum um leið og þeir sækja um ríkisborgararéttinn og ég hef t.d. lýst hér í sambandi við þessa menn, sem ég hef flutt sérstakar till. um, séu alveg nægilegar til þess, að Alþ. geti eftir þeim metið það, hvort viðkomandi aðili sé til þess hæfur að fá íslenzkan ríkisborgararétt. Þeim ástæðum hef ég lýst hér, og ég held, að eftir þeim sé alveg hægt að mynda sér skoðanir um þetta mál, og að þær upplýsingar séu meira virði heldur en þessi 10 ára regla, sem n. telur það eina, sem hægt sé að fara eftir.