07.11.1952
Efri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

43. mál, bann við okri, dráttarvöxtum o. fl.

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og gerð er grein fyrir í nál. á þskj. 183, mælir meiri hl. fjhn., 4 af 5 nm., með því, að frv. þetta, sem er flutt til staðfestingar á brbl., verði samþ. að mestu leyti óbreytt.

S.l. vetur hækkaði Landsbankinn innlánsvexti í allstórum stíl frá 1. apríl að telja: vexti af venjulegum sparisjóðsinnstæðum úr 31/2% í 5%, af innstæðum uppsegjanlegum með 6 mánaða fyrirvara í 6% og af umsömdum innstæðum til 10 ára upp í 7%. Þetta var að vísu sanngjarnt gagnvart þeim þörfu þegnum, sem leggja fé inn í lánsstofnanir til ávöxtunar og hjálpa með því þeim, sem eru að leita eftir lánum og segja má um marga hverja að séu í lánsfjárhungri. En jafnframt hækkaði þá bankinn líka vexti af útlánum og þar á meðal fasteignaveðslánum og handveðslánum; í þeim lánaflokkum var hækkunin úr 6% upp í 7%. Þetta var bankanum heimilt samkv. þeim sérstöku l., sem um hann gilda. Hins vegar mæla l. um bann við okri, nr. 73 frá 19. júní 1933, svo fyrir, að óheimilt sé að taka hærri vexti, en 6% af fasteignaveðslánum og handveðslánum, en þeim l. er þjóðbankinn óháður.

Þegar Landsbankinn hafði hækkað innlánsvexti sína, hlutu aðrir bankar og sparisjóðir að hækka innlánsvexti líka hjá sér, því að annars hefðu þeir misst innlánsfé sitt; það segir sig sjálft.

Þetta var að minnsta kosti sparisjóðunum mjög erfitt og alls ekki hægt, nema þeir fengju heimild til að hækka vexti af útlánum gegn fast- eignaveði og handveði, að minnsta kosti eins og Landsbankinn hækkaði vextina hjá sér. Með tilliti til þess gaf hæstv. ríkisstj. út brbl., sem hér liggja nú fyrir í frv. til staðfestingar. Samkv. framansögðu er alls ekki um það að ræða í sambandi við þetta frv., hvort hækkun vaxtanna hjá Landsbankanum var æskileg, heldur um það að gefa sparisjóðum og öðrum, sem lána, rétt til að taka sömu vexti og Landsbankinn tekur og breyta l. um bann gegn okri á þá leið. Ef Alþingi synjaði um þetta, væri það dauðadómur yfir öllum sparisjóðum í landinu. Þann dauðadóm telur meiri hl. fjhn. ekki koma til mála að kveða upp og leggur því til, að frv. verði samþ.

Þó leggur meiri hl. til. að síðasta málslið aðalgreinar frv. verði breytt. Eins og þessi málsliður hljóðar í frv., felur hann í sér, að ef Landsbankinn lækki aftur umrædda útlánsvexti, megi aðrir ekki heldur taka hærri vexti, en hann af sams konar lánum. Meiri hl. n. lítur svo á, að rangt sé að setja lagaákvæði um að rifta þeim samningum, sem þá þegar hafi verið gerðir um 7% vexti, þótt Landsbankinn lækki vextina hjá sér; það verði að vera frjálst samkomulagsmál milli lántakanda og lánveitanda, hvort umsamin lán, að því er vextina snertir, verði óbreytt. Hins vegar eigi ákvæði þetta aðeins að ná til samninga, sem gerðir verði eftir að Landsbankinn lækkar vextina, ef til kemur. Þess vegna leggur meiri hl. til, að í stað þess, að í frv. segir nú, að ekki megi „taka hærri vexti“ en Landsbankinn reiknar sér, komi, að ekki megi „semja um hærri vexti“. Og er það í fullu samræmi við orðalag gr. á undan og einnig í fullu samræmi við, að nú, þegar heimilað er að hækka vextina, þá nær sú heimild ekki til eldri samninga hafi þeir verið með fastbundnum vöxtum. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um málið fleiri orð.