19.01.1953
Neðri deild: 52. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

164. mál, ríkisborgararéttur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Með frv. þessu, sem hingað er komið frá Ed., er lagt til að veita 15 útlendingum ríkisborgararétt. En þegar athuguð eru þessi nöfn, kemur í ljós, að hér er um erlend eftirnöfn að ræða, sem mjög stinga í stúf við íslenzkt mál, eins og t.d. nöfnin Eysturoy, Felzmann, Heinieke, Kyvik, Mikkelsen, Seháfer, Vorovka o.s.frv.

Á síðasta þingi var ríkisborgararéttur veittur útlendingum með því skilyrði, að þeir tækju upp íslenzk nöfn, til þess að forða því, að útlend ættarnöfn ílentust hér og að fjöldi manna í landinu gengi eftir nokkur ár undir útlendum ættarnöfnum. Ef ætti að veita öllum þessum mönnum leyfi til þess að halda sínum ættarnöfnum, þá er þeim veittur allt annar og meiri réttur en íslendingum sjálfum, sem bannað er að taka upp ættarnöfn. Ég vænti því þess, að hv. n. taki það til athugunar, þegar hún fjallar um þetta frv., hvort ekki beri að setja sömu skilyrði við frv. þetta eins og var gert á þinginu í fyrra, til þess að fyrirbyggja það, að yfir landið flæði útlend ættarnöfn og ílendist hér um aldur og ævi.