19.01.1953
Neðri deild: 52. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

164. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. sagðist óttast, að ef yrði farið að minni till., þá mundi reynslan verða sú, að þessi erlendu ættarnöfn festust algerlega í málinu, sökum þess að ríkisvaldið héldi slælega á sínu eftirliti. í fyrsta lagi er nú það um þetta að segja, að ef sú yrði raunin á, þá yrði það algerlega sök ríkisvaldsins, sem auðvitað hefur það á valdi sínu að fylgja því eftir, að nafnalögum sé hlýtt.

Hitt er rétt hjá hæstv. ráðh., að það hefur verið mjög slælegt eftirlit með því, að nafnalögum sé hlýtt. Það væri fyllsta ástæða til þess að gera að því gangskör að láta hlýða þeim, og ég vildi að gefnu þessu tilefni mjög mælast til þess við hæstv. menntmrh., að á því yrði látin fara fram athugun, að hversu miklu leyti íslenzkum nafnalögum sé hlýtt, og gera gangskör að því að láta hlýða þeim. En um það, að líklegt væri, að nöfnin festust, ef hlutaðeigandi menn mættu halda þeim, er það að segja, að mér finnst ekkert þurfa að óttast það, vegna þess að það kæmi strax í ljós, hvort meining þessara manna væri að láta niðjana bera íslenzku nöfnin eða ekki, því að börn undir 16 ára aldri ættu strax að fara að kenna sig við hið nýja fornafn föðurins. Þá mundi strax koma í ljós, að ef þau nota áfram ættarnafnið, þá er það lögbrot, þá er það brot gegn þeim reglum, sem settar hafa verið. En það verður ekki talið neitt álag á börn og unglinga, þótt þau verði að skipta um nafn, hætta að bera ættarnafnið og kenna sig til fornafns föður síns. Eins og ég sagði áðan, er vandamálið það, ef börnin eru orðin fullorðin, hvort á að láta nýju nöfnin gilda um þau eða ekki, en þar held ég að skynsamlegast væri að taka upp ákveðið mark, 16 ára eða tvítugt eða eitthvað því um líkt, og láta nýju nöfnin þá gilda undir því marki.

Hæstv. ráðh. sagði, svo sem eðlilegt er, að það væri mikils virði fyrir þessa aðila að fá ríkisborgararéttinn og það væri ekki til of mikils af þeim mælzt, þótt þeir fórnuðu sínu fyrra nafni. Mér finnst nú, að það eigi ekki að líta á veitingu ríkisborgararéttarins eins og eins konar verzlun að þessu leyti. Við skulum gá að því, að Alþ. veitir ríkisborgararéttinn ekki sem eins konar greiða við þessa aðila, heldur jafnframt auðvitað af því, að við teljum það íslenzku þjóðfélagi feng að fá þessa menn í hóp íslenzkra ríkisborgara. Hér er ekki um neitt kaup kaups að ræða, heldur er um gagnkvæma hagsmuni að ræða. Og mér finnst það ekki vera sómasamlegt fyrir íslenzka löggjafa að vilja þannig taka eitthvað í staðinn, taka eitthvert verð af þessum erlendu mönnum fyrir það að fá að veita þeim ríkisborgararétt. En það er rétt, og það viðurkennir hæstv. ráðh. í þessum ummælum sínum, að það sé fórn fyrir þessa aðila að þurfa að láta af því nafni, sem þeir hafa borið frá því að þeir hlutu skírn. Það er vissulega rétt hjá hæstv. ráðh. Og það er í rauninni meiri fórn en svo, að mér finnist rétt að ætlast til hennar. Það er of mikil fórn af hálfu þessara manna að þurfa að segja skilið víð nafn, sem er orðið hluti af sjálfum þeim, sérstaklega ef hægt er að komast hjá því. Og það er ekki nauðsynlegt. Tilgangurinn, sem er réttlætanlegur, er að koma í veg fyrir, að erlend nöfn festist í málinu. Þau verða ekki talin festast í málinu, þó að þeir, sem ríkisborgararéttinn fá, fái að nota þau áfram meðan þeir eru á lífi, ef þannig er frá gengið, að afkomendur þeirra noti ekki þessi nöfn. Og það verður ekki talin vera of mikil fórn, þó að börn eða unglingar upp að vissu marki séu látin breyta um nafn og lúta sömu reglum hvað þetta snertir og íslenzk börn og unglingar almennt gera nú.