30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

164. mál, ríkisborgararéttur

Jón Pálmason:

Ég hef leyft mér að flytja hér eina brtt. við þetta frv., og er hún á þskj. 681, um það, að einum manni, sem ekki hefur verið tekinn með, verði bætt inn á frv. Það er Arne Jacobssen verkamaður í Rvík, fæddur 10. ágúst 1911 í Noregi. Þessi maður sótti um ríkisborgararétt í fyrra og aftur nú, en af einhverjum ástæðum hefur hann ekki verið tekinn með, og stendur þó eins á um hann og nokkra aðra, sem fengið hafa ríkisborgararétt.

Að ég blanda mér í þetta mál, stafar af því, að aðstandendur þessa manns hafa leitað eftir því, að ég athugaði, hvort ekki væri hægt að koma þessu fram og eins hvort það væri ekki eðlilegt og í samræmi við það, sem gerist um aðra menn. Þessi maður er giftur íslenzkri konu, og eru þau búin að vera gift siðan 1943 og eiga tvö börn, en hafa verið hér alla tíð síðan. Maðurinn flutti hingað 1941, en fyrstu fjögur árin var hann í norska verzlunarflotanum, en frá 1945 hefur hann verið hafnarverkamaður hjá Eimskipafélagi Íslands. Það, sem fundið var að, að því er mér skildist, hjá hv. allshn. Ed., var það, að hann hafði ekki verið með föstu heimilisfangi fyrr en 1945, en ég hef fengið upplýsingar um það, að að minnsta kosti 6 menn, sem eins stendur á um og allir eru Norðmenn, fengu ríkisborgararétt hér á síðasta þingi. Nú skal ég til frekari upplýsinga lesa hér upp þau vottorð, sem fylgja þessari umsókn, og eru þau tvö. Það er fyrst frá Gunnari Benediktssyni hæstaréttarlögmanni, og er það á þessa leið:

„Árið 1943 kynntist ég herra verkamanni Arne Jæobssen, Sigtúni 37 í Rvík, og hef þekkt hann síðan. Er mér kunnugt um, að þá hafði hann starfað hér í norska verzlunarflotanum tvö undanfarin ár, og vann hann þar samfellt til stríðsloka. Frá þeim tíma hefur Arne Jacobssen unnið hjá Eimskipafélagi Íslands sem verkamaður. Arne er álitinn duglegur starfsmaður, og er mér persónulega kunnugt um, að hann er siðprúður og heiðarlegur maður.“

Hér er annað:

„Ég undirritaður, Jón Rögnvaldsson, verkstjóri hjá Eimskipafélagi Íslands h/f í Rvík, til heimilis Hátúni 3 hér í bænum, votta hér með, að herra Arne Jacobssen, Sigtúni 37 í Rvík, hefur s.l. 51/2 ár unnið hjá Eimskip sem starfsmaður undir minni stjórn, og hefur mér reynzt hann duglegur í starfi, ábyggilegur og sérlega reglusamur í hvívetna.“

Nú er það náttúrlega út af fyrir sig sjálfsagt að gæta allrar varfærni í veitingu ríkisborgararéttar, en það verður líka að gera kröfur til þess, að þeir menn, sem fara með þetta vald, sem er fyrst og fremst í höndum allshn. þingsins, gæti samræmis í því að útiloka ekki einn aðila, sem stendur eins á um og aðra. — Ég vil nú mega vænta þess, að hv. n., að fengnum þessum upplýsingum, mæli með því, að þessi maður verði einnig tekinn inn á frv.