30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

164. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 649 varðandi nöfn hinna nýju ríkisborgara. Legg ég þar til, að þeir, sem heita erlendum nöfnum, skuli ekki öðlast íslenzkan ríkisborgararétt samkv. l. fyrr en þeir hafa fengið íslenzkt fornafn og sama regla skuli gilda um barn, sem fær ríkisfang samkv. l. með foreldri sínu, en það skuli hins vegar kenna sig við föður, móður eða kjörföður samkv. gildandi lögum um mannanöfn. Þeir niðjar þessara nýju ríkisborgara, sem fæðast eftir gildistöku þessara laga, skulu síðan á sama hátt kenna sig við föður, móður eða kjörföður samkv. reglu nafnalaganna. Í till. hv. allshn. er hins vegar gert ráð fyrir því, að hinir nýju ríkisborgarar taki sér algerlega íslenzkt nafn, þ.e.a.s. bæði fornafn og föðurnafn.

Slíkt skilyrði var sem kunnugt er sett í fyrra, og þá í fyrsta sinn, í sambandi við veitingu ríkisborgararéttar. Ég hef áður látið þess getið hér, að ég tel þetta ákvæði í fyrra vera tilkomið vegna vandamáls, sem er ekki auðvelt að leysa. Ég álít hins vegar, að þá hafi verið hrapað að lausn málsins og að miklir erfiðleikar hafi komið í ljós, er farið var að framkvæma þessa samþykkt Alþingis frá því í fyrra, og þá fyrst hafi menn, að minnsta kosti ýmsir, gert sér ljóst, að það er miklum erfiðleikum bundið að framfylgja þeirri stefnu, sem þar var mörkuð.

Ég hef gert mér far um að kynna mér það, hvort slík ákvæði tíðkist í nokkru nágrannalandanna. Eftir því, sem ég hef komizt næst, mun svo ekki vera. Það mun m.ö.o. vera einsdæmi í Vestur-Evrópu, að því sem ég hef komizt næst, að slík skilyrði um nafnbreytingar séu sett um leið og ríkisborgararéttur er veittur. Og það er ekki undarlegt. Hér er um að ræða afar viðkvæmt mál fyrir hlutaðeigendur. Þarf ég ekki um það að fjölyrða, að segja má, að nafn manns sé að víssu leyti hluti af sjálfum honum, nafn hans táknar tengsl við foreldra og fjölskyldu. Að skylda mann til að segja skilið við nafn sitt getur í augum ýmissa jafngilt því að höggva á helg fjölskyldubönd. Við framkvæmd laganna frá því í fyrra hefur einnig komið í ljós, að mál þetta er svo viðkvæmt, að ýmsir hinna nýju ríkisborgara hafa tekið þann kost að þiggja ekki ríkisborgararéttinn sökum þessa skilyrðis, sem veitingin var háð, og hafa ekki allir þeir, sem ríkisborgararéttinn áttu að fá, skipt um nafn og þar með ekki orðið íslenzkir ríkisborgarar.

Það er í raun og veru allt að því fráleitt að skylda útlenda menn til þess að hlíta ákvæðum nafnalaganna algerlega eins og þau eru, vegna þess að í því felst skylda til þess að taka sér íslenzkt fornafn og síðara nafn, þar sem maður skal kenna sig við föður, móður eða kjörföður, og það nafn á auðvitað að vera íslenzkt líka. M.ö.o.: Maðurinn þarf ekki einungis að íslenzka fornafn sitt, heldur þarf hann einnig að íslenzka föðurnafn sitt, og sé föðurnafnið með þeim hætti, að það verði ekki íslenzkað, þá þarf hann beinlínis að endurskíra föður sinn eða, þar sem skylt er að kenna sig við föður, telja sig son manns með ákveðnu nafni, að búa það nafn til frá rótum. Það er þetta, sem gerir það sérstaklega andkannalegt að skylda menn til þess að skipta einnig um síðara nafnið, enda kemur það í ljós, að mörg hinna nýju fornafna, sem hinir nýju ríkisborgarar hafa tekið, eru í meiri eða minni tengslum við það fornafn, sem menn hafa þegar borið áður, en síðari nöfnin eru mörg hver algerlega út í bláinn. Og það er hreint ekki undarlegt, þó að mönnum sé það viðkvæmt mál að taka allt í einu að kenna sig við nöfn, sem ef til vill hafa aldrei komið fyrir í fjölskyldum þeirra, eða feður þeirra báru a.m.k. ekki.

Ég hef hér fyrir framan mig lista yfir þær nafnbreytingar, sem átt hafa sér stað, en hika dálítið við að gera þær mikið að umtalsefni. Þó skal ég nefna nokkur dæmi um þessar nafnbreytingar. Hér er t.d. maður, sem heitið hefur Vidkun Amandus Rafn og heitir núna Hrafn Ámundason. Hér er ættarnafnið gert að fornafni, en föðurnafnið að því er virðist tilbúið. Maður, sem hefur heitið Otto Arnold Weg, nefnist nú Ottó Arnaldur Magnússon; í staðinn fyrir Weg kemur Magnússon. Max Robert Heinrieh Keil heitir Magnús Teitsson. Jan Wladyslaw Lotkowski heitir Jón Ólafsson. Það kemur varla til greina, að faðir þessa manns hafi heitið Ólafur eða nokkru nafni, sem getur talizt náskylt nafninu Ólafur. Að því er manni virðist, er hér um það eitt að ræða, að valið er nafn, sem á íslenzku hefur líkan hljóm nafninu Lotkowski, Ólafsson, en er þó auðvitað algerlega óskylt. Maður, sem borið hefur nafnið Karl Heinrieh Max Moritz Hírst, heitir Karl Hinrik Albertsson. Maður, sem heitið hefur Ingvald Föreland, hefur tekið sér nafnið Ingi Ólafsson. Johannes Erik Fridolf Berlin heitir Jóhannes Eiríkur Eiríksson.

Eins og sést á þessu, eru fornöfn þau, sem þessir erlendu menn hafa borið, þannig, að mjög auðvelt er að íslenzka þau svo, að um tiltölulega litla breytingu er að ræða á nafninu. Hins vegar verður aðalbreytingin í síðara nafninu, í ættarnafninu, og þar veldur þetta því, að menn taka sér föðurnafn, sem að minnsta kosti í mörgum tilfellum hefur greinilega ekki verið nafn föðurins, þó að stundum kunni það að hafa verið, og er þetta auðvitað mjög óeðlilegt, eiginlega fráleitt.

Hitt er rétt, að sökum fornrar menningarvenju Íslendinga varðandi nafngiftir er mjög slæmt að veita erlendum nöfnum, og þó einkum erlendum ættarnöfnum, heimilisfang í íslenzku máli. Einmitt þess vegna er hér mikið vandamál á ferðinni.

Ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. alþm., hver deila varð hér fyrr á árum varðandi mannanöfn. Meginatriði þess máls voru í sem allra fæstum orðum sagt, að til 1913 höfðu engar fastar reglur um þetta efni gilt, þó að langflestir hefðu fylgt þeirri fornu venju, að menn bæru eitt eða fleiri íslenzkt nafn og kenndu sig síðan til föður síns. 1913 voru hins vegar samþ. l., sem heimiluðu mönnum skýrum stöfum að taka sér ættarnöfn, enda hafði verið háð barátta fyrir því, að Íslendingar legðu niður þennan forna sið sinn og tækju sér allir ættarnöfn. Svo langt var þó ekki gengið að skylda menn til töku ættarnafna, heldur var það einungis heimilað. Samkv. heimild í þessum l. frá 1913 tóku sér allmargir ættarnöfn, fengu þau lögskráð og lögfest. Þessi l. voru hins vegar afnumin með gildandi l. um mannanöfn frá 1925, og í þeim l. var bannað að taka upp ný ættarnöfn. Það er því bannað nú. Hins vegar var mönnum í þessum l. frá 1925 heimilað að halda þeim ættarnöfnum, sem þá höfðu verið lögskráð, og sú heimild náði ekki einungis til þeirra manna, sem þá báru nöfnin, heldur einnig til allra niðja þeirra.

Samkv. gildandi l. gilda í raun og veru tvenns konar ákvæði að því er varðar mannanöfn. Þeir, sem báru lögleg ættarnöfn 1925, og allir niðjar þeirra mega halda ættarnöfnum sínum áfram. Aðrir skulu fylgja þeirri reglu að bera eitt eða fleiri íslenzk nöfn og kenna sig við föður, móður eða kjörföður, og ný ættarnöfn má ekki upp taka. Það er því misskilningur, sem komið hefur fram, að verði till. mín á þskj. 649 samþykkt, þ.e.a.s., verði hinum nýju ríkisborgurum leyft að bera áfram sín ættarnöfn, meðan þeir eru á lífi, sé þeim veittur meiri réttur, en ýmsum Íslendingum er nú veittur samkv. gildandi nafnalögum, því að ýmsir menn, eins og ég gat um áðan, hafa þann rétt nú að bera ættarnöfn, sem og allir niðjar þeirra.

Ég geri ráð fyrir því í þessari till., að hinir nýju ríkisborgarar njóti hluta af þeim rétti, sem þeim, sem báru ættarnöfnin 1925, var veittur, er nafnalögin voru sett. Þá hvarflaði það ekki að neinum að skylda þá menn, sem báru ættarnöfn, til nafnbreytingar. Við mjög lauslega athugun á þeim umræðum, sem fóru fram um þetta mál, virtist mér ekki hafa verið uppi till. um það 1925 að skylda þá menn, er þá báru ættarnöfn, til þess að skipta um nafn og taka að kenna sig við föður, móður eða kjörföður að venjulegum hætti. Það þótti öllum sjálfsagt að láta þá fá að halda ættarnöfnum sínum. Hitt er annað mál, að sumir töldu vafasamt, að sú heimild ætti einnig að ná til niðjanna, en niðurstaðan varð sú.

Það, sem mér finnst eðlilegasta stefnan í sambandi við nöfn hinna nýju ríkisborgara, er að láta þá sjálfa fá að halda sínum ættarnöfnum, meðan þeir lifa, en láta hins vegar niðjana ekki halda þeim rétti, heldur láta þá þegar í stað, þ.e. þau börn, sem fylgja foreldrum sínum og öðlast ríkisfang um leið og foreldrarnir, taka að kenna sig við föður sinn, og þá geta nöfn þeirra orðið með algerlega íslenzkum hætti, þar sem gert er ráð fyrir því, að hinir nýju ríkisborgarar taki sér allir íslenzkt fornafn.

Það hefur verið sagt, að af þessu mundi hljótast ruglingur og að nöfnin mundu þrátt fyrir allt ílendast í málinu. En till. er hvað þetta snertir alveg skýrt orðuð. Afkomendur hinna nýju ríkisborgara eiga þegar í stað að taka að kenna sig við föður sinn, þannig að það gefst enginn frestur til þess, hvað þá snertir, að láta hin nýju ættarnöfn festast.

Ef litið er yfir nöfn þeirra manna, sem hér er nú ætlazt til að fái ríkisborgararétt, verður augljóst, hversu auðvelt er að framkvæma þær breyt., sem ég geri ráð fyrir í minni brtt., þar eð langflestir þessara manna bera fornöfn, sem afar litið þarf að víkja við, til þess að þau verði algerlega að íslenzkum hætti, og geta þm. gengið úr skugga um það með því að líta yfir nafnalistann á þskj. 537, 637, 654 og 681. Langflest þeirra eru þannig, að aðeins þarf að víkja við, e.t.v: aðeins rithætti, til þess að nöfnin geti talizt algerlega íslenzk. Um nöfn barnanna er auðvitað ekki kunnugt, en eftirnafn þeirra yrði þá auðvitað líka algerlega íslenzkt.

Mér finnst rétt að minna á það í þessu sambandi, að margt þetta fólk, jafnvel flest af því, hefur þegar búið lengi hér á landi, og hefur margt af því raunverulega skoðað sig sem Íslendinga, þótt ekki hafi það haft íslenzkt ríkisfang. Það á hér sína kunningja og hefur tengzt margvíslegum fjölskylduböndum. Einmitt með tilliti til þess er það mjög harkalegt að skylda það til algerrar nafnbreytingar, — eins og till. allshn. gerir ráð fyrir. Segja mætti, að öðru máli gilti um fólk, sem væri að flytja til landsins og setjast hér að, ef svo mætti segja, í algerlega nýju landi eða nýjum heimi. Þá mætti segja, að því fylgdi minni sársauki fyrir slíkt fólk, um leið og það tæki sér nýtt heimili, þó að það tæki sér nýtt nafn. En þetta á ekki við um langflest af því fólki, sem hér er um að ræða og hefur þegar verið búsett hér langalengi, talar íslenzku, býr hér sem íslenzkt fólk og hefur búið hér sem íslenzkt fólk, og ég lái því ekki, þó að því sé það viðkvæmt mál að þurfa nú allt í einu að segja skilið við nafn sitt.

Það hefur einnig verið að því víkið í sambandi við málið, að það væri í rauninni í ósamræmi við nafnalögin að heimila þessu fólki að bera áfram, meðan það lifir, sín erlendu ættarnöfn, þar eð í nafnalögunum standi, að enginn megi bera nafn, sem lúti ekki lögum íslenzkrar tungu. Um þetta er í fyrsta lagi það að segja, að fjölmargir íslenzkir ríkisborgarar bera nú þegar nöfn, sem lúta ekki lögum íslenzkrar tungu, og hef ég ekki heyrt till. um að skylda þá menn til nafnbreytingar af þeirri sök einni. Um hitt er ég alveg sammála, að æskilegt er að framfylgja nafnalögunum miklu betur í framtíðinni og sjá svo um, að ekki séu börn skírð öðrum nöfnum en þeim, sem híta réttum lögum íslenzkrar tungu. En það er óeðlilegt að framfylgja þessu ákvæði nafnalaganna, sem hingað til hefur ekki verið í fullum heiðri haft, einvörðungu gagnvart þeim, sem sækja um íslenzkan ríkisborgararétt, en láta ekki eitt yfir alla ganga, svo sem sjálfsagt er að gera.

Að síðustu vildi ég svo aðeins endurtaka það, sem ég tel kjarna málsins, að nauðsynlegt er að koma í veg fyrir, að erlend nöfn fái til frambúðar heimilisfang í íslenzku máli. En ég vil þó ekki kaupa það svo dýru verði, að nokkur fullorðinn maður sé knúinn til algerrar breytingar á nafni sínu með þeim persónulegum afleiðingum fyrir hann, sem slíkt hlýtur að hafa, sérstaklega þar sem mér finnst á þessu máli vera til miklu einfaldari og sanngjarnari lausn, sem fullnægi í raun og veru sjónarmiðum beggja, — þeirra, sem vilja koma í veg fyrir, að erlend nöfn festist í málinu, og þeirra einstaklinga, sem hér eiga hlut að máli og er það eðlilega viðkvæmt mál að þurfa að segja skilið við það nafn, sem þeir sjálfir hafa borið ef til vill um langa ævi og fjölskylda þeirra ef til vill um aldaraðir. Lausnin er sú að láta þessa breytingu einungis ná til niðjanna, sem gætu borið algerlega íslenzkt nafn, en hinir nýju ríkisborgarar íslenzki aðeins fornafn sitt. Það eiga þeir mjög auðvelt með í langflestum tilfellum.