30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

164. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. N-Ísf. gerði hér grein fyrir brtt. sinni, og það kom í ljós, eins og ég reyndar vissi fyrir, að það skortir nokkuð á búsetuna hjá þessum tveim mönnum, sem hans brtt. hljóðar um. Það var algild regla áður, að ef menn fóru í burtu, dvöldust ekki samfellt í 10 ár, þá var ekki lagt til að veita slíku fólki ríkisborgararétt, a.m.k. var slík till. ekki borin fram af hálfu allshn. í þeirri tíð, sem ég hef þekkt til afgreiðslu hennar á þessum málum. Nú kemur það í ljós, að þó að ekki sé tekið tillit til þeirrar dvalar, sem þessi hjón áttu erlendis, þó að ekki sé litið þannig á það, eins og hefur þó verið algild regla, að þau hafi slítið búsetutíma, þá eru þau samt ekki búin að vera hér nema í 9 ár, og 5 ár af þessum tíma er þessi maður í þjónustu útlendinga, að vísu hér á landi, en mun hafa verið í þjónustu landa sinna hér, Norðmanna, fram undir 1945. Kona hans hefur, sakir þess að hún dvaldist með manni sínum erlendis um 3 ára skeið, tapað íslenzkum ríkisborgararétti, og eins og rétt er, þá ber hv. þm. fram till. um að veita henni hann nú á ný. — Mér þótti nú vænt um, að hv. þm. N-Ísf. bauðst til að taka sína till. aftur til 3. umr., ef n. vildi athuga málið nánar. Ég vil gjarnan einmitt óska þess, að hann geri það, því að ég held, að n. eigi ekki annars kost nú, ef hún á að greiða atkv. um þessa till. hans strax, en að greiða atkv. á móti henni.

Þá hefur hv. þm. A-Húnv. gert grein fyrir sinni till., og það fór eins og mig varði þar, að þennan mann skortir nokkuð á sína heimilisvist hér á landi. Hann kemur hingað fyrst 1941 og er 4 árin í verzlunarflota Noregs. Hann kann að hafa verið hér við land eða ef til vill verið í siglingum í öðrum löndum, það þekki ég ekki, — ef til vill má eitthvað sjá á skjölunum, sem með umsókninni fylgja, — en svo hefur hann unnið frá 1945 hér. En eins og allir sjá á þessu, þá uppfyllir hann ekki heldur þá aðalreglu, sem verið hefur. En það er alveg rétt, sem hv. A-Húnv. sagði, að það eru dæmi til um það, þó að allshn. þessarar d. hafi ekki gert till. um slíkt, að samþ. hefur verið af þinginu að veita ríkisborgararétt, þó að menn hafi ekki til fulls uppfyllt þessi skilyrði, og m.a. liggur það fyrir hér á þessu frv. eftir afgreiðslu hv. Ed. á því, að þá uppfylla ekki allir einmitt þetta skilyrði, svo að hann hefur rétt fyrir sér að því leyti. Ef hv. þm. A-Húnv. þykir ekki miður að fresta atkvgr. um sína till. til 3. umr., þá vildi ég gjarnan óska þess. Ég held, að það tapist ekkert við það frá hans sjónarmiði, svo að sé fylgi fyrir að veita þessum manni íslenzkan ríkisborgararétt, þá ætti það alveg eins að mega takast við 3. umr.

Annars vil ég taka það fram í sambandi við afgreiðslu á þessum umsóknum, að n. hefur enga hvöt til þess að vera mönnum meinsmaður með að fá þennan rétt. Ef þeir uppfylla öll skilyrði, sem þarf til þess, og þeir að öðru leyti hafa öll sín plögg í lagi og vitnisburður þeirra er góður og æskilegur, þá er fjarri því. En svo mikið er sótt um íslenzkan ríkisborgararétt nú orðið af hálfu útlendinga, að sjálfsagt er að hafa fulla aðgæzlu um afgreiðslu slíkra mála.

Hv. 3. landsk. hefur gert að umtalsefni það skilyrði, sem sett var inn í l. í fyrra fyrir því, að menn fengju íslenzkan ríkisborgararétt, um nafnabreytinguna, að menn tækju upp íslenzk heiti, og þykir á skorta um afgreiðslu málsins í fyrra og telur þá afgreiðslu hæpna og jafnvel fráleita að skylda menn til að taka alveg upp íslenzk heiti. Telur hann, að það nálgist eða jafnvel geti alveg orðið til þess að höggva á fjölskyldubönd, sem mönnum sé sárt um. Ættir, sem að þessu fólki standa, hafi haft þessi heiti kannske í aldaraðir o.s.frv.

Það er auðvitað um þetta atriði að segja, að það má ómögulega skoða af hálfu Alþ. sem menn á einhvern hátt vilji krenkja þetta fólk, þegar íslenzkur ríkisborgararéttur er því veittur, og ég vil vona, að þeir, sem eftir þessum rétti sækja og vilja öðlast hann, líti ekki þannig á málið, heldur skoði þeir meir þá nauðyn, sem hlýtur að vera fyrir okkur Íslendinga á því að vernda okkar tungu, vernda okkar mál. Nú er hv. 3. landsk. það menntaður maður, að hann þekkir til erlendra tungna, og svo að ég vitni sérstaklega til tungumálanna á Norðurlöndum, þá veit hann alveg eins og ég, hvernig þar hefur tekizt til með þeirra mál. Norsk tunga, dönsk tunga, svo að ég nefni þessi tvö þjóðlönd, líða stórkostlega einmitt af þessu. Þar er fullt af heitum, sem eru komin frá öðrum þjóðum. Og eftir því sem ég ætla, þá munu vera enn meiri brögð að því í Danmörku, heldur en þó í Noregi. Því fámennari sem þjóðin er, því meiri hætta stafar henni af, að málið brenglist, hvort heldur það stafar af nafngift á fólki eða tekin eru erlend orð í tunguna, nema því aðeins að þau séu þess eðlis, að þau geti lotið lögum málsins algerlega, bæði í töluðu máli og skrifuðu. Það eru auðvitað einstök heiti og einstök orð, sem geta samlagazt málinu, og af þeim stafar minnst hætta. En hugsum okkur nú eftir nokkrar aldir, þegar það fólk, sem við erum búnir að veita íslenzkan ríkisborgararétt, og þeir, sem eftir þessu hafa leyfi til þess að halda þeim nöfnum áfram, ef nú svo tækist til, að niðjar þeirra færu að kenna sig að einhverju leyti við heiti, þó að ekki sé það ættarnafnið, heldur hafi nafnið í sér eitthvað af heiti sinna forfeðra, hvernig íslenzkt mál mundi þá líta út. Þó að við gerum ráð fyrir miklu betri aðgæzlu, heldur en verið hefur um þetta efni hjá okkur um, að ekki væru tekin upp nema íslenzk nöfn, og að þess væri gætt, að menn tækju ekki upp ættarnöfn o.s.frv., og þá enn betur en er, þá er eigi að siður mjög mikil hætta einmitt um þetta efni, nema algerlega sé fyrir það tekið. Þetta veit ég að hv. 3. landsk. þm. hlýtur að sjá.

Nafnalögin, sem voru samþ. á Alþ. 1925, eru nú nokkuð skýr, og auðsætt er, til hvers hefur verið ætlazt með þeim. Þó vitum við ósköp vel, hvernig það hefur tekizt. Því miður hefur þess ekki verið gætt í framkvæmdinni að hafa þessa löggjöf í heiðri, og þess vegna ber enn þá meira á því en nokkurn tíma var þá, að það eru komin ýmis nöfu, sem menn hafa sumpart sem nokkurs konar ættarnöfn eða eitthvert aukaheiti, sem fer illa í íslenzku máli, og það vill svo til, að einmitt á þessu ári, sem þessi löggjöf var sett, eru hér 9 heiti, sem tilkynnt eru í Stjórnartíðindunum og menn hafa tekið upp, sjálfsagt með löglegu móti. Ég hef ekki haft tækifæri til þess að rannsaka það, en ekki sýnist mér, að það fari sérlega vel. Það er t.d. orðið Árnason, án þess að það sé náttúrlega kennt við föður, Gunnlaugsson, Hallgrímsson, Hofdal, Kristmanns, Markan, Rósinkrans, Valfells, Varmdal, — auðvitað ekki Varmidalur, heldur Varmdal, þó að það sé nú örlitið öðruvísi, en tungunni er nú eiginlegast og hljómar bezt í íslenzku máli. Ég nefni þetta af því, að þetta gerist þó einmitt um leið og á sama árinu og þessi l. eru sett. Það sýnir, að mikil nauðsyn er á að hafa þarna einmitt skarpar línur og skilmerkilegar, ef það á að hafa fulla gæzlu um þetta efni.

Hv. þm. telur, að mörgum finnist eins og nafnið sé hluti af sjálfum sér. Það má nú vel vera. Ég vil ekki vera með neinar getgátur um það, hvernig menn líta á það, en þess ber þó að gæta, að þegar útlendur maður á í hlut og er ekki í sínu heimalandi, þar sem hans tungumál er ekki talað, heldur allt annað mál, og ef hann hugsar til fyrir sig að dvelja til æviloka í þessu landi og niðjar hans koma til með að dvelja þar áfram, þá finnst mér, að það hljóti að vera honum nokkur linkind, þó að hann breyti um nafn, og þá hafi minna að segja sú mikla hefð og helgi, sem kann að vera á ættarnafni hans. Ég vil taka það trúanlegt, að þeir, sem sækja um ríkisfangsrétt, geri það í því skyni, að þeir vilji vera hér, þeir skoði það sitt föðurland orðið, þó að þeir hafi átt annað föðurland fyrir, og þeir hafi þá trú á landinu og þeirri þjóð, sem þeir taka sér bólfestu hjá, að þeir ætli niðjum sínum að lifa með þjóðinni, og þá held ég, að það hljóti að vera þeim enn ríkara í huga, að það, sem niðjanna biður í þessu efni, verði samkvæmt eðli þeirrar tungu, sem þeir tala, svo að það mál sé haft í heiðri, mál þess föðurlands, sem niðjar þeirra hafa tekið sér bólfestu í. Það hefði ég viljað meina, að þannig væru þeir ekki gerðir, þessir menn, þó að þeir séu komnir til fullorðinsára, að þeir meti ekki þessar ástæður fyrir niðja sína meira en það, sem þeim kann að virðast í fljótu bragði um sínar eigin tilfinningar, aðeins fyrir heiti sínu. Ég vil engan veginn gera lítið úr þessu atriði í sjálfu sér, þar sem það á heima, en úr því að maðurinn er setztur að í allt öðru þjóðlandi, þar sem allt annað mál er talað, og úr því að hann hugsar til, að hann dvelji, — þannig verður maður að taka þetta, — að hann dvelji ævi sína í þessu landi, og ef hann á niðja, þá komi þeir til með að vera þar, þá hefði ég haldið, að það væri enn helgari réttur og meira virði en þó að hann skipti um nafn um leið og hann fær íslenzkan þegnrétt. Ég meira að segja lít þannig á, að mörgum útlendum manni, sem svona er ástatt um, væri ljúft einmitt að færa þessa fórn fyrir sjálfan sig, til þess að öðlast þegnréttinn, og fyrir niðja sína. Hinir, sem þannig kann að vera ástatt um, að þeir eigi ekki niðja og það sé aðeins um þá sjálfa að ræða, þá verð ég að segja það, að ef þeim finnst það mikils virði að fá íslenzkan þegnrétt, þá held ég, að þeir verði að færa þessa fórn. Ég held, að við getum ekki tekið svo mikið tillit til þeirra, að við getum undanþegið þá, því að það er vitaskuld ekki hægt, ef hitt á ávallt að vera reglan, og þeir verði þá að færa þessa fórn, ef þeim finnst þá einhver fórn í því. Finnist þeim, að þeir geti það alls ekki, þeir geti ekki unnið það til að fá þennan þegnrétt, þá verður náttúrlega að vera án þeirra, og þó að það kunni að vera góðir menn, þá finnst mér samt, að við verðum að láta það ráðast, hvort þeir láta þetta ráða sínum óskum eða ekki.

Hv. þm. drap á, að það mundi ekki vera í neinum öðrum löndum, sem þetta væri sett að ófrávíkjanlegu skilyrði, þó að menn öðluðust þegnrétt. Það má vei vera. Ég þori ekkert að fullyrða um það, ég þekki ekki svo til. En ég vil segja honum, og það vil ég að hann geri sér ljóst, að fyrir okkur, sem erum langsamlega minnsta þjóðin, þegar miðað er við sjálfstæðar þjóðir, er miklu vandfarnara í þessum efnum heldur en þær. En þess ber þó líka að gæta, að þrátt fyrir þeirra fjölmenni ber nú þeirra nafngift á fólki og þeirra tunga líka menjar þess, að þeir hafi ekki verið á verði eins og skyldi um sína eigin tungu. Við höfum verið svo lánsamir, Íslendingar, að eiga marga góða menn, sem hafa verið á verði fyrir íslenzka tungu. Okkar forna menning og okkar mál er fyrst og fremst þessu að þakka, að við erum sjálfstæð þjóð enn og höfum nú endurheimt frelsi okkar. Ef við hefðum ekki verið jafnpassasamir og lánsamir um þessa hluti, þá er áreiðanlegt, að þetta væri týnd þjóð í þjóðahafið. Við höfum einmitt þess vegna í þessum efnum mikils að gæta, og þó að maður vilji vera góður við aðra menn og gjarnan gera þeim til geðs, eftir því sem við höfum aðstöðu til, þá lít ég þannig á, að við höfum ekkert leyfi til þess, samt sem áður, að gera það á kostnað okkar móðurmáls.

Ég vil því vænta, að hv. d., sem gerði þessa ákvörðun í fyrra, þegar l. um þetta efni voru afgreidd, mjög skörulega, haldi fast við þá ákvörðun og málið verði nú afgreitt á sama hátt.