30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

164. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla fyrst að víkja fáeinum orðum að ræðu hæstv. menntmrh. Ég var í rauninni hissa á því, að jafngreindum manni og honum skyldi heppnast að koma fyrir jafnmiklu af missögnum í jafnstuttri ræðu. Aðalatriði í ræðu hans voru þrjú. Ég mun sýna fram á, að þau voru öll á misskilningi byggð.

Hæstv. ráðh. sagði í fyrsta lagi, sem er nú kannske aukaatriði, að ég hefði ekki mælt fast með þeim forna sið Íslendinga, að menn kenni sig við föður sinn. Það gerði ég ekki að aðalatriði máls míns, vegna þess eins, að um það er hér engin deila. Við erum allir, sem höfum talað um málið, algerlega sammála um, að það eigi að vera aðalregla framvegis í íslenzku máli, að menn beri eitt eða fleiri íslenzkt nafn og kenni sig við föður sinn. Um það er enginn skoðanamunur á milli hæstv. ráðh. eða hv. 1. þm. Árn. og mín, enda gerir till. mín ráð fyrir því, að öll börn hinna nýju ríkisborgara skuli þegar í stað taka sér íslenzkt fornafn, ef þau hafa það ekki, og taka að kenna sig við föður sinn, sem einnig skuli taka íslenzkt fornafn, þannig að nöfn barnanna verði algerlega að íslenzkum hætti. Ég taldi mig ekki þurfa að rökstyðja það, sem enginn ágreiningur er um milli okkar í málinu, en ég get gjarnan bætt því við, sem raunar leiðir af hinu, að ég er persónulega algerlega andvígur ættarnöfnum og tel raunar, að ganga ætti lengra en hv. n. vill nú ganga. Ég er að vísu ekki þeirrar skoðunar, að þeir, sem nú bera ættarnafn, eigi að leggja þau niður, þ.e. breyta nafni sínu, heldur að niðjar þeirra ættu að leggja þau niður og taka að kenna sig við föður sinn, að hinum venjulega íslenzka hætti. Svo eindreginn er vilji minn til að halda í heiðri þessum forna íslenzka sið.

Þá sagði hæstv. ráðh. í öðru lagi, að í till. minni fælist engin lausn, því að hin erlendu ættarnöfn mundu ekki deyja út, niðjarnir mundu nota þau áfram. Ég fæ ekki séð, hvernig hæstv. ráðh. getur staðhæft annað eins og þetta, þegar það er skýrt tekið fram í minni brtt., að þau börn hinna nýju ríkisborgara, sem fylgja foreldrum sínum og fá ríkisfang að lögum ásamt þeim, skuli taka upp íslenzkt fornafn og kenna sig við hið íslenzka fornafn föður síns. Hvaða ástæða er til þess að halda, að þetta ákvæði verði frekar brotið heldur en ákvæðið, sem samþ. var í fyrra, að menn skuli taka upp algerlega íslenzkt nafn, fornafn og ættarnafn? Mér finnst það vera mikil ósamkvæmni að gera alltaf ráð fyrir því, að tili. hv. allshn. verði framfylgt út í æsar, en reglan samkv. minni till. verði alltaf brotin. Sannleikurinn er sá, að það er síður en svo torveldara að framkvæma mína till. Það er þvert á móti auðveldara. Ég vildi segja, að ýmislegt benti til þess, að meiri líkur væru til þess, að stefna hv. allshn. yrði rofin, en ekki sú stefna, sem ég vil marka í málinu. Styð ég það við þau almennu sannindi, að þeim mun gagngerðari breyt. sem er gerð, þeim mun minni líkur eru á því, að hún nái fram að ganga í raun og veru. Mér er raunar ekki alveg grunlaust um, að þegar beri á því, að nafnbreytingunum frá því í fyrra sé ekki framfylgt. Ég held, að talsvert kveði að því, að menn hafi talið þessa breyt. svo róttæka og jafnframt svo ósanngjarna, að menn hafi ekki framkvæmt hana. Að lögum hafa mennirnir ný nöfn, en nota þau ekki í raunveruleikanum. Þetta er náttúrlega miður farið, og þessu mæli ég ekki bót. Því fer fjarri. En ég verð að segja, að ef sú leið er farin, sem ég sting upp á, þá hef ég þá trú, að mönnum finnist hún svo miklu sanngjarnari, að það verði auðveldara að halda uppi þeim lögum heldur en hinum, sem nú eru í gildi, eða yrðu í gildi, ef till. meiri hl. n. yrði samþykkt. Þess vegna er sú staðhæfing hæstv. ráðh. algerlega úr lausu lofti gripin, að hin erlendu ættarnöfn mundu ekki deyja út, ef till. mín næði fram að ganga. Það er auðvelt að fara að ganga úr skugga um það strax næsta dag eftir að lögin eru samþykkt, hvort þeir unglingar, sem leggja eiga ættarnafnið niður og taka að kenna sig við hið íslenzka fornafn föður síns, hlýða þessu eða hlýða því ekki. Hitt tel ég engu máli skipta, þó að þeir aðilar, sem þegar eru á fullorðinsaldri, fái að halda sínum ættarnöfnum þann tíma, sem þeir eiga eftir ólifað.

Þá sagði hæstv. ráðh., og það var þriðja atriði máls hans, að með till. minni væri þessum erlendu mönnum veittur meiri réttur, en Íslendingum sjálfum. Þetta er alger misskilningur. Réttur Íslendinga í þessu efni er nú sá, að menn mega bera ættarnafn, ef þeir höfðu það 1925, og ekki aðeins þeir sjálfir, heldur niðjar þeirra einnig. Þau ættarnöfn mega lífa í málinu, hvort sem þau eru íslenzk eða erlend. Ég tel engan vafa á því, að allir þeir menn, sem hér eiga hlut að máli, hafi haft ættarnafn árið 1925, svo að ef þeim er núna gert að skyldu að leggja ættarnafnið niður, þá eru þeir sviptir rétti, sem talíð var sjálfsagt, að allir íslenzkir ríkisborgarar fengju að njóta árið 1925, og enginn mælti þá með, að skyldi af þeim tekinn. Þetta er því alveg öfugt. Sanni nær væri að segja, að þessum mönnum væri veittur minni réttur, en Íslendingar hafa nú, og er í sjálfu sér ekkert við það að athuga, einkum þegar stefnir í rétta átt, eins og tvímælalaust gerir, ef það væri tryggt, að ættarnöfnin hverfi úr málinu um leið og þessir menn, sem núna fá ríkisborgararétt, hverfa af sjónarsviðinu.

Hæstv. ráðh. minntist svo enn fremur á það ákvæði nafnalaganna, að menn mættu ekki bera nöfn, nema þau, sem væru rétt að lögum íslenzkrar tungu. Þá vil ég minna hæstv. ráðh. á allan þann fjölda íslenzkra manna, sem nú bera ekki aðeins ættarnöfn, heldur beinlínis erlend ættarnöfn, og gera það í skjóli við gildandi lög um mannanöfn frá 1925. Erlend ættarnöfn eru svo kunn, að ég þarf ekki á þau að minna, algerlega erlend nöfn, eins og t.d. Claessen, Möller, Petersen, Biering og mörg, mörg fleiri. Allt saman eru þetta lögleg ættarnöfn að íslenzkum lögum, sem þeir menn, sem nú bera þau, mega bera og allir niðjar þeirra. Ef halda á svona strangt á málum gagnvart hinum erlendu mönnum, þá ætti auðvitað líka að svipta þessa menn heimild til þess að bera hin erlendu nöfn, með tilvísun í það, að þau lúti ekki lögum íslenzkrar tungu. En mér er spurn: Dettur nokkrum manni slíkt í hug? Dettur nokkrum manni í hug í alvöru að bera fram frv., þar sem nöfn eins og þessi væru bönnuð og þeim mönnum, sem nú bera þau, væri skylt að leggja þau niður og taka upp íslenzk nöfn í staðinn? Það væri alveg hliðstætt því, sem hér er að gerast. Hvað halda menn, að yrði sagt, ef hér væri borið fram frv. um það, að nöfn eins og Claessen, Möller, Petersen, Biering og fjöldamörg önnur, sem ég gæti nefnt, skyldu hverfa úr málinu, þeir menn, sem bera þau, leggja þau niður og taka sér önnur, íslenzk nöfn í staðinn? Ég mundi fara hörðum orðum um slíkt frv., telja það allt að því móðgun við þá menn, sem hér er um að ræða. Og ég held, að um þetta séu menn svo sammála, að engum dytti í hug að sýna slíkt frv. Hitt væri annað mál, og það tel ég mjög vel geta komið til greina, að samþykkja lagaákvæði, sem kæmi í veg fyrir, að niðjar þessara manna, frá einhverjum vissum degi, mættu hera þessi nöfn, heldur skyldu þeir fylgja hinum venjulega, forna og ágæta íslenzka sið. Það væri allt annað mál, og það teldi ég mjög vel koma til athugunar.

Hv. 1. þm. Árn. ræddi almennt um nauðsyn þess að vernda tunguna fyrir erlendum orðum og erlendum nöfnum. Vék hann að dæmum frá nágrannaþjóðunum og gat þess, hvernig tungur þeirra hefðu spillzt af erlendum orðum og erlendum nöfnum. Ég er sammála hverju einasta orði, sem hv. þm. sagði um þetta efni. Milli okkar er enginn ágreiningur um brýna nauðsyn þess að koma í veg fyrir það, að tungan spillist af erlendum nöfnum og erlendum orðum. Það, sem ég hef lagt til málanna, er einnig við það miðað. Tilgangur þess er einnig sá að koma í veg fyrir, að fleiri erlend ættarnöfn, en nú eru í málinu fái þar heimilisfang. En hitt er annað mál, að ég tel ekki nauðsynlegt að ganga eins langt í þeim efnum og hv. þm. og hæstv. menntmrh. vilja ganga. Ég tel ekki nauðsynlegt að vera jafnbráðlátur í þeim efnum eins og þeir, ekki svo bráðlátur, að það þurfi að kosta jafnóvenjulega ráðstöfun, jafnalgerlega óvenjulega ráðstöfun og þá að láta fullorðið fólk skipta um nafn í því umhverfi, sem það hefur dvalizt í árum saman, ef ekki áratugum. Ég tel íslenzkri tungu enga hættu af því stafa, þó að það fólk, sem hér er um að ræða, og það, sem framvegis verður veittur ríkisborgararéttur, fái að halda nöfnum sínum óbreyttum meðan það lifir, í þau ár eða áratugi, sem það á eftir ólifað, ef jafnframt er algerlega tryggt, að niðjar þeirra allir saman beri íslenzk nöfn og þá fullkomlega í samræmi við hina fornu og góðu íslenzku venju hvað þetta snertir.

Hv. þm. talaði um nauðsyn á skörpum linum í þessu efni og nauðsyn á því að vera mjög vel á verði. Ef hv. þm. vill í raun og veru láta vera algerlega skarpar línur í þessu máli og vera fullkomlega á verði, þá er ekkert annað í samræmi við skoðanir hans, og sama gildir um hæstv. ráðh., en að leggja fram frv. um það að útrýma öllum erlendum nöfnum og ættarnöfnum úr málinu. Það eitt er algerlega skörp og fullkomlega hrein lína, og það eitt mundi tryggja það, að málið héldi ekki áfram að spillast af slíkum erlendum nöfnum. Það dettur hv. þm. ekki í hug, og það dettur hæstv. menntmrh. ekki heldur í hug. (Gripið fram í.) Það hefur a.m.k. ekki komið fram í umr. enn þá. Og það er af því, vænti ég, að þeir sjá, að það er hart að gengið, sérstaklega ef það er að óþörfu, að skylda menn til nafnbreytingar á fullorðinsárum.

Hv. þm. sagði einnig, að menn hefðu ekki leyfi til þess að vera góðir við aðra menn á kostnað móðurmálsins. Þessari setningu er ég líka algerlega sammála. En ég tel það ekki vera að gera neitt á kostnað móðurmálsins, þó að nokkrir einstaklingar fái að bera það sama nafn, sem þeir hafa borið frá vöggu, til grafar, ef jafnframt er tryggt, að nafnið lifi ekki áfram í málinu. Og ég vil segja það að síðustu, að ég treysti hæstv. ríkisstj. mjög vel til þess að framkvæma þau ákvæði, sem ég hef lagt til í brtt. minni, að yrðu lögtekin, og það er mjög auðvelt að framkvæma þau. Það er mjög auðvelt að hafa eftirlit með því, að börn hinna nýju ríkisborgara taki sér íslenzk fornöfn og taki þegar í stað að kenna sig við hið íslenzka fornafn föður síns. Það er ekki torveldara að framfylgja því heldur en hinni gagngeru breytingu, sem n. leggur til. Það er þvert á móti miklu auðveldara að halda þeirri reglu uppi heldur en stefnu hv. allshn.